Toppbarátta FH og ÍBV slást ásamt Selfossi um deildarmeistaratitil karla.
Toppbarátta FH og ÍBV slást ásamt Selfossi um deildarmeistaratitil karla. — Morgunblaðið / Hari
FH og Selfoss mætast annað kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Olísdeild karla í handknattleik en næstsíðasta umferð deildarinnar er öll leikin á sama tíma, klukkan 19.30. FH er með 32 stig en Selfoss og ÍBV 30 stig hvort.

FH og Selfoss mætast annað kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Olísdeild karla í handknattleik en næstsíðasta umferð deildarinnar er öll leikin á sama tíma, klukkan 19.30.

FH er með 32 stig en Selfoss og ÍBV 30 stig hvort. FH gæti orðið deildarmeistari annað kvöld með sigri á Selfyssingum, ef ÍBV vinnur ekki Stjörnuna í Eyjum á sama tíma.

Í lokaumferðinni á miðvikudagskvöld leikur FH við Stjörnuna á útivelli, ÍBV sækir Fram heim og Selfoss tekur á móti Víkingi.

Liðin gætu öll endað jöfn með 34 eða 32 stig stig og þá myndi heildarmarkatala Selfoss og ÍBV ráða úrslitum um hvort þeirra yrði deildarmeistari. FH stendur höllum fæti í innbyrðis leikjum gegn keppinautunum eftir að hafa tapað öllum leikjum gegn þeim í vetur.

Úrslitaleikur á Akureyri í dag

Á Akureyri er mikið í húfi þegar tvö efstu liðin í 1. deild kvenna, KA/Þór og HK, mætast í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í dag. Bæði eru taplaus í vetur en KA/Þór er með tveggja stiga forystu og nægir jafntefli til að fara upp í úrvalsdeildina. HK færi hins vegar upp með sigri. Liðið í öðru sæti fer í umspil.

Þá mætast tvö neðstu lið Olísdeildar kvenna, Grótta og Fjölnir, í hreinum úrslitaleik í dag um hvort þeirra kemst í umspil og hvort fellur. Fjölni nægir jafntefli. vs@mbl.is