Heimferð undirbúin Síðustu daga hefur ýmis búnaður verið prófaður.
Heimferð undirbúin Síðustu daga hefur ýmis búnaður verið prófaður.
„Þetta er hörkuskip og stóra skrúfan skilaði sínu í togprufu og veiðarfæratilraunum.

„Þetta er hörkuskip og stóra skrúfan skilaði sínu í togprufu og veiðarfæratilraunum. Það verður spennandi að koma loksins heim með skipið og hefja veiðar,“ sagði Magnús Ríkarðsson, skipstjóri á Breka, í spjalli frá Kína í gærmorgun, en þá var komið kvöld í Shidaho í Rongcheng. Síðustu daga hafa áhafnir skipanna undirbúið heimsiglinguna, en lagt verður af stað á þriðjudag. Framundan er 50 daga ævintýraferð systurskipanna í samfloti um framandi slóðir.

„Í fyrsta áfanga siglum við suður fyrir Singapoore og tökum olíu og kost í Colombo á Sri Lanka. Síðan höldum við áfram upp í Súes og það verður að ráðast hvort við tökum olíu þar eða á Möltu í Miðjarðarhafinu. Við reiknum með um 50 dögum í siglinguna miðað við að siglt verði á 11,5-12 mílum á tímann, en þetta eru 11.300 mílur í heildina. Við getum siglt hraðar en þá eyðum við mikilli olíu, sem er óhagkvæmt og óþarfi.

Við gerum ráð fyrir miklum hita á þessari leið og alveg 35-40 gráðum meðfram Singapoore, Sri Lanka og Sómalíu. Skipin verða eins og bakaraofnar við þær aðstæður og við höfum því komið upp kælibúnaði í brú, íbúðum og vélarrúmi,“ segir Magnús skipstjóri, sem er búinn að vera í Kína með hléum síðan í febrúar í fyrra.

Finnur Kristinsson frá Skipasýn hefur séð um eftirlit með smíði beggja skipanna frá upphafi. Hann vantar aðeins einn mánuð upp á að hafa búið í þrjú ár í Shidao. Finnur verður vélstjóri í áhöfn Breka í heimferðinni. Fleiri hafa unnið að eftirliti með smíðinni, m.a. Sverrir Pétursson, áður útgerðarstjóri hjá HG, sem hefur verið í Kína í tvö ár.