[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókaforlagið Partus heldur sínu striki með útgáfu Meðgönguljóða, bókaröð sem helguð er nýjabruminu í íslenskri ljóðlist. Í síðustu viku komu úr þrjár bækur í röðinni. Salt heitir ljóðabók Maríu Ramos.

Bókaforlagið Partus heldur sínu striki með útgáfu Meðgönguljóða, bókaröð sem helguð er nýjabruminu í íslenskri ljóðlist. Í síðustu viku komu úr þrjár bækur í röðinni.

Salt heitir ljóðabók Maríu Ramos. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefur áður birt ljóð og smásögu í skólablaði MH. Salt er fyrsta ljóðabók Maríu. Í bókinni er að finna ljóð um konur sem skrifa, ljóð um seltuna í tilverunni. Saltið býr í tárunum og harminum, en það skerpir líka bragðið af lífinu og vekur okkur upp af doðanum.

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir er líka að gefa út sína fyrstu ljóðabók og nefnir hana Freyju . Díana lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og grunnnámi í almennri bókmenntafræði og ritlist frá Háskóla Íslands. Díana stundar nú framhaldsnám í menningarfræði við sama skóla. Í bókinni er að finna vafningalaus ljóð um flækjurnar og hnútana í lífinu og dauðanum og tilraunir okkar til þess að leysa þá með orðum.

Þriðja frumraunin er Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, ljóðabók þar sem heilt líf liggur undir, frá átákanlegri reynslu ungrar stúlku til þroskaðra tilfinninga og hugsana fullorðinsáranna. Ásdís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, BS-prófi í jarðfræði og meistaraprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Ásdís starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu og hefur gefið út prjónablað og námsbækur. Hún hefur birt ljóðaþýðingar í Stínu og Tímariti Máls og menningar og ljóð hennar og smásögur hafa birst í enskum þýðingum. Ásdís stundar nám í ritlist við Háskóla Íslands.