Virtur Leikstjórinn Danny Boyle.
Virtur Leikstjórinn Danny Boyle. — AFP
Enski kvikmyndaleikstjórinn Danny Boyle sagði í viðtali í vikunni að hann væri að skrifa handrit næstu kvikmyndar um njósnarann James Bond ásamt John Hodge. Myndin verður sú 25. um njósnarann.

Enski kvikmyndaleikstjórinn Danny Boyle sagði í viðtali í vikunni að hann væri að skrifa handrit næstu kvikmyndar um njósnarann James Bond ásamt John Hodge. Myndin verður sú 25. um njósnarann. Boyle var spurður í sjónvarpsviðtali út í verkefnið og staðfesti hann að þeir Hodge væru að vinna að handritinu samhliða öðru fyrir leikstjórann Richard Curtis. Boyle sagði að líklega myndu tökur á Bond-myndinni hefjast í árslok og að handritið væri byggt á frábærri hugmynd. Þeir Hodge hafa unnið saman að þremur kvikmyndum sem Boyle leikstýrði, Trainspotting , T2: Trainspotting og The Beach .

Boyle er með virtari leikstjórum samtímans, hefur m.a. hlotið Óskarsverðlaunin og forvitnilegt verður að sjá hvaða tökum hann tekur 007. Daniel Craig mun snúa aftur í hlutverki njósnarans og að öllum líkindum í síðasta sinn. Síðustu kvikmyndir um Bond hafa notið afar góðrar aðsóknar og fallið aðdáendum njósnarans vel í geð og þá sérstaklega Skyfall . Aðalframleiðandi Bond-myndanna hefur ekki enn staðfest að Boyle muni leikstýra þeirri næstu en til stendur að frumsýna hana 8. nóvember 2019.