Víkverji man vel eftir því þegar hann tók sjálfur samræmd próf. Það árið voru bara tekin tvö samræmd próf, annars vegar í íslensku og hins vegar í stærðfræði en mörg önnur ár þarna í kring var prófað einnig í dönsku og ensku.

Víkverji man vel eftir því þegar hann tók sjálfur samræmd próf. Það árið voru bara tekin tvö samræmd próf, annars vegar í íslensku og hins vegar í stærðfræði en mörg önnur ár þarna í kring var prófað einnig í dönsku og ensku. Víkerji man eftir að hafa tekið prófunum mjög alvarlega og finnast þau vera úrslitaatriði varðandi framtíðina.

Það er kannski hægt að hlæja að því núna að hafa tekið þessu svona alvarlega en þá skiptu einkunnirnar máli því hverfisskólafyrirkomulag var í gildi. Nemendur úr ákveðnum skólum höfðu öruggt aðgengi að vissum skólum og öðrum ekki, nema einkunnirnar væru þeim mun betri. Víkverja langaði ekki í hverfisskólana heldur vildi sækja annað. Það gekk eftir og Víkverji er mjög feginn að hafa getað sótt þann skóla sem hann vildi. Núna er hverfisskólafyrirkomulagið sem betur fer fyrir bí en það gerir það líka að verkum að samkeppnin er mikil um að komast inn í eftirsóttustu skólana.

Það var virkilega leiðinlegt að fylgjast með því hvernig samræmdu prófin sem lögð voru fyrir 9. bekk klúðruðust. Það þýðir ekki að skella skuldinni á eitthvert tæknifyrirtæki úti í heimi. Menntamálastofnun verður að bera ábyrgð á því að hafa sóað tíma nemenda, kennara og skólastjórnenda. Mikið álag fylgir svona prófum og það þarf að taka umræðuna lengra en bara um framkvæmdina. Það er nauðsynlegt að skoða tilgang prófanna. Það lítur ekki út fyrir að prófin mæli raunverulega kunnáttu nemanda nema að takmörkuðu leyti. Líka raska þau hefðbundnu og jafnan vel skipulögðu skólastarfi í grunnskólum.

Það var því ekki ásættanleg niðurstaða að nemendum í 9. bekk gefist kostur að þreyta að nýju könnunarpróf í íslensku og ensku. Það er ekki hægt að varpa ábyrgðinni með þessum hætti á nemendurna sjálfa og þá um leið skikka skólana til að eyða fjármunum og tíma í framkvæmd prófanna í annað sinn.