Guðvarður Jónsson
Guðvarður Jónsson
Eftir Guðvarð Jónsson: "Eitt af loforðum núverandi ríkisstjórnar var að ellilífeyrir ætti að vera orðinn 300 þúsund kr. á mánuði um síðustu áramót. Ekki hef ég orðið var við þessar hækkanir."

Eitt af því vinsælasta hjá hverri ríkisstjórn, þegar spurt er um efndir á loforðum, er að segja, að þetta og hitt sé komið í nefnd, skoðun eða umfjöllun og þar lifa loforðin góðu lífi til næstu kosninga. Nú virðist svo komið að loforð VG séu einmitt komin í þessa hvíldarstöðu, undir umhyggju Bjarna og Sigurðar og er þar nú ekki í kot vísað. Eitt mál er þó farið að þvælast allverulega fyrir mönnum. Það er fjósakonuheimsóknir ákveðinna þingmanna og þykja þær valda verulegu peningaflæði sem erfitt virðist að útskýra, en eins og allir vita á allt sínar eðlilegu skýringar.

Þingmenn eru nú bara í vinnunni sinni. Verkamenn fá ekki greitt fyrir að flytja sig til og frá vinnustöðum. Þó eru þeir að vinna að verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið svo hægt sé að greiða þingmönnum laun og öðrum hálaunamönnum. Þessar heimsóknir þingmanna eru bara ákveðin þjónusta við flokksgæðinga en ekki fyrir hina almennu kjósendur. Þeir eiga lítinn sem engan aðgang að þingmönnum. Þar að auki eru samskipti í tölvum og farsímum orðin svo mikil að ástæðulaust er að auka samskiptin með milljóna ferðakostnaði.

Eitt af loforðum núverandi ríkisstjórnar var að ellilífeyrir ætti að vera orðinn 300 þúsund kr. á mánuði um síðustu áramót. Ekki hef ég orðið var við þessar hækkanir en aftur á móti lækkuðu greiðslurnar til mín um 30 þús. kr. á mánuði um síðustu áramót. Kannski hef ég og fleiri misskilið orð þingmanna, þeir hafa sennilega átt víð að um næstu aldamót verði þau börn sem nú eru að fæðast, með 300 þús. kr. á mánuði.

Læknisþjónusta fyrir aldraða er eitt af því sem hefur tekið allverulegum breytingum. Fólk sem orðið er áttrætt og uppúr er nánast komið út af þjónustusviðinu. Hvort þetta er ákvörðun ráðherra eða eingöngu sparnaðarákvörðun lækna veit ég ekki en allavega lítilmannlegur hugsunarháttur sem að baki liggur. Annað er að þegar lágstéttaraðili er tekinn í aðgerð er slíkur sjúklingur notaður til þess að láta nýliða gera sína fyrstu aðgerð án þess að sjúklingnum sé sagt frá því. Það ætti að vera lágmarkskrafa að sjúklingurinn viti að sá sérfræðingur sem hann var sendur til geri ekki aðgerðina, heldur nemi. Vissulega þurfa nemar að fá sín tækifæri en sjúklingurinn á að vita það og á að hafa rétt til skoðunar á því.

Framundan er endurskoðun á kjarasamningum verkamanna. Þar sem hærra launaðir hafa í áratugi fengið kjarabætur samkvæmt prósentuhækkun og þar með fengið allar verðhækkanir bættar margfaldar á móti einfaldri hækkun verkafólks, hlýtur lágtekjufólk að fá góða hækkun núna. Án þess að hærra launaðir fái krónu.

Sumir þingmenn vilja lögleiða kannabisefni og þar með neyslu þeirra. Nú þegar eru ökumenn undir áhrifum örvandi efna mjög ógnandi við ökumenn sem þeir telja að séu fyrir þeim og gera oft tilraun til að keyra á bíla. Hvernig verður ástandið ef efnið verður löglegt?

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðvarð Jónsson