— Morgunblaðið/Eggert
Mun er hönnunarverslun og vinnustofa á Barónsstíg. Það eru hönnunarstúdíóin Anna Thorunn, Bybibi, Færid, North Limited og Ihanna Home sem standa á bak við Mun sem tekur þátt í Hönnunarmars með nýjum verkum og spennandi viðburði. Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is

Það eru hönnuðirnir Anna Þórunn Hauksdóttir hjá Anna Thorunn, Sigríður Hjaltdal Pálsdóttir hjá Bybibi og Þórunn Hannesdóttir hjá Færid fyrir North Limited og Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir og Iðunn Brynja Sveinsdóttir hjá Ihanna Home sem standa á bak við Mun. Mun er tilvísun í muni og minningar og leggja hönnuðirnir upp úr klassískri, hágæða hönnun. Sýningar Mun vegna Hönnunarmars verða opnar til 24. mars en þar mun einnig hönnunartvíeykið Flétta, sem þær Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir skipa, sýna handgerða kertastjaka auk þess sem munir frá Studio Trippin verða til sölu.

Vinnustofa fyrir börn

Laugardaginn 17. mars verður haldin spennandi vinnustofa fyrir börn á milli klukkan 12 og 15. Þar gefst börnum tækifæri á að skreyta sinn eigin Krumma í tilefni þess að Krummi, hönnun Ihönnu, verður 10 ára á árinu.