Loftur Altice Þorsteinsson fæddist 25. júní 1944. Hann lést 26. febrúar 2018.

Loftur var jarðsunginn 6. mars 2018.

Fallinn er frá stjúpfaðir minn og vinur, Loftur Altice Þorsteinsson, eftir langa og hetjulega baráttu við taugahrörnunarsjúkdóminn MND. Loftur kom snemma inn í líf mitt og reyndist mér alla tíð traustur og umhyggjusamur stjúpfaðir. Nú þegar ég horfi til baka koma upp margar minnisstæðar myndir af okkar fjölbreyttu og skemmtilegu samskiptum.

Loftur kenndi mér snemma listina að tefla enda skákmaður góður. Við eyddum ófáum stundum við taflborðið, þ.e. ég við borðið en hann í næsta herbergi og ég kallaði til hans leikina. Hann svaraði jafnharðan og oftar en ekki hafði hann síðan betur sem gat reynst erfiður biti að kyngja fyrir ungan og kappsfullan skákmann.

Loftur var fræðimaður í hjarta sínu og hafði alla tíð mikinn áhuga á sögu og þá sérstaklega sögu fornra þjóða og tungumálum þeirra. Varð ég þess aðnjótandi að fá að hlusta á marga fróðlega fyrirlestra um löngu gleymd tungumál þessara þjóða og hvernig þau mögulega gátu tengst við norræn mál. Þessi viðfangsefni fylgdu Lofti alla tíð og hann skilur eftir sig stórt og mikið bókasafn sem nú bíður nánari skoðunar.

Áhugasvið Lofts voru fjölbreytt og hann var jafnan virkur í þjóðfélagsumræðunni. Ungur að árum var hann róttækur vinstrimaður og við gengum saman Keflavíkurgöngu til að mótmæla veru erlends herliðs hér á landi. En áður en langt var um liðið gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og tók virkan þátt í starfi hans á meðan krafta hans naut við. Ég man enn þá ánægjulegu stund þegar ég ungur að árum fór snemma morguns fram til þess að kíkja á frekar fábrotnar íþróttasíður Þjóðviljans en í stað hans var nú skyndilega kominn þykkur og safaríkur Moggi.

Eftir að Loftur hætti störfum sem verkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins stofnaði hann heildverslunina Hlutverk og rak hana um árabil. Á þessu sviði sem öðrum sýndi hann fljótt hæfileika sína og reksturinn var mjög arðbær um langt skeið. Hann var hagsýnn maður, þolinmóður og úrræðagóður og bjó ástvinum sínum alla tíð fallegt og gott heimili.

Lofti varð sjálfum ekki barna auðið en hann tók barnabörnum sínum opnum örmum frá fyrsta degi. Hann var óþreytandi við að sinna þeim og leika við og hjálpa við heimanám ef svo bar undir. Hann naut þess að kenna og lauk fjölbreyttri starfsævi við framhaldsskólakennslu nokkur ár.

Loftur greindist með MND fyrir um níu árum. Hann tók þessum erfiða sjúkdómi af yfirvegun og þolinmæði lengst af og í anda fræðimannsins lagðist hann fljótt í að kynna sér til hlítar allt sem tengdist honum. En kraftarnir fóru þverrandi og lestrargetan sömuleiðis en í stað hennar jókst áhugi hans á íþróttum. Við sóttum ófáa kappleiki saman þar sem íslensk landslið áttu í hlut og frábær árangur íslenskra íþróttamanna á undanförnum árum færði honum mikla ánægju. Loftur var mikill Íslendingur alla tíð og stolt yfir landi og þjóð jókst mjög á síðustu æviárunum.

Það er með miklum söknuði sem ég, Kolbrún og Kári kveðjum nú kæran vin og lífsförunaut en minning um góðan mann mun lifa.

Takk fyrir okkur, elsku vinur.

Arnar Þór Sveinsson.