Gunnlaugur Sveinbjörnsson
Gunnlaugur Sveinbjörnsson
„Nokkrir kaflar á Hringveginum eru hreinlega ónýtir. Þar get ég til dæmis nefnt góðan spotta ofan við Borgarnes og svo Langadal í Austur-Húnavatnssýslu.

„Nokkrir kaflar á Hringveginum eru hreinlega ónýtir. Þar get ég til dæmis nefnt góðan spotta ofan við Borgarnes og svo Langadal í Austur-Húnavatnssýslu. Sá síðarnefndi er mjór og undirlagið farið svo það tekur í að aka þar í gegn á þungum bíl með aftanívagn,“ segir Gunnlaugur Sveinbjörnsson bílstjóri hjá Eimskip. Hann hefur verið í ferðum milli Reykjavíkur og Húsavíkur í alls 32 ár og þekkir leiðina því út og inn.

„Helstu fyrirstöðurnar á leiðinni eru annars þegar maður ekur inn og út úr höfuðborginni, ótal þrengingar og hringtorg til dæmis í Mosfellsbænum. Þar getur verið erfitt að komast í gegn og mér finnst alveg óskiljanlegt hvers vegna Sundabrautin hafi verið tekin af dagskrá, jafn nauðsynleg og sú framkvæmd er,“ segir Gunnlaugur sem telur byggingu nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót, það er í Köldukinn, vera orðna aðkallandi framkvæmd. Sama gildi um nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði, en núverandi brú þar var byggð fyrir um 70 árum.