Norðurland Bugðóttur þjóðvegurinn í Kræklingahlíð skammt norðan við Akureyri. Flutningabíll á suðurleið og framundan er Moldhaugnaháls.
Norðurland Bugðóttur þjóðvegurinn í Kræklingahlíð skammt norðan við Akureyri. Flutningabíll á suðurleið og framundan er Moldhaugnaháls. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ástand þjóðveganna er slæmt og bráðaaðgerða við endurbætur er þörf.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ástand þjóðveganna er slæmt og bráðaaðgerða við endurbætur er þörf. Þetta er rauði þráðurinn í máli þeirra sem Morgunblaðið hafði tal af í vikunni; landsbyggðarfólks sem er daglega á ferðinni og þekkir af eigin raun hver staðan sé. Víða hefur undirlag vega gefið sig, malbik og klæðningar eru að molna niður, veikbyggðir vegkantar þola illa þunga til dæmis rútu- og flutningabíla ef þarf að aka út á brún þegar ökutæki mætast. Viðmælendum ber saman um að vegir komi illa undan vetri og þar megi um kenna að takmörkuðum fjármunum hafi verið varið til viðhalds. Þar liggi rætur vandans.

Ýmsar framkvæmdir á dagskrá

Rúmlega 8,0 milljörðum króna verður í ár varið til viðhalds þjóðvega, samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Vali Jóhanssyni framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar. Helstu verkefnin þar eru endurbætur á Gjábakkaleið við Þingvelli, fyrsti áfangi uppbyggingar Laugarvatnsvegar fram í Grímsnes, og styrking á Biskupstungnabraut nærri Geysi. Í Saurbæ í Dölum er svo verið að byggja upp þjóðveginn þar og á Norðurlandi verður vegurinn milli Fnjóskadals og Fljótsheiðar styrktur og byggður upp, sem helst í hendur við að Vaðlaheiðargöng eru að komast í gagnið.

Til nýframkvæmda er varið 13,9 milljörðum króna. Stærstu verkefnin eru gerð Dýrafjarðarganga og þverun Berufjarðar, en síðarnefnda framkvæmdin er lokaáfanginn í því að hringvegurinn verði allur lagður bundnu slitlagi. Önnur verkefni framundan eru upphaf á framkvæmdum við breikkun hringvegar milli Selfoss og Hveragerðis, breikkun Grindavíkurvegar að hluta og uppbygging á vegunum um Uxahryggi og Fróðárheiði, bygging brúar yfir Bjarnarfjarðará á Ströndum og breikkun brúa á Hólá, Stigá og Kvíá í Öræfum og yfir Tjarnará á Vatnsnesi. Þá verður haldið áfram með Dettifossveg og gerð nýs vegar um Skriðdal eystra aukinheldur sem fyrstu áfangarnir viðvíkjandi brú yfir Hornafjarðarfljót verða teknir.