Verður þeirri spurningu svarað í Hvítbók um fjármálakerfið?

Theodóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar Framtíðar í Kópavogi og fyrrum alþingismaður, sagði í samtali við RÚV fyrir nokkrum dögum:

„Við erum ekki að stunda þessa flokkapólitík eins og fjórflokkurinn. Ég komst að því mjög fljótt að við vorum engan veginn á sama stað í vinnubrögðum, í þankagangi. Ég sá það strax að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert hrunið upp við sig.“

Þetta er því miður rétt hjá Theodóru en hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort einhver breyting verður á því á þeim landsfundi flokksins, sem stendur yfir um þessa helgi.

Ummæli Theodóru vekja hins vegar aðra spurningu, hvort verið geti að fleiri eigi eftir að gera hrunið upp en Sjálfstæðisflokkurinn.

Getur verið að þjóðin sjálf hafi ekki horfst í augu við vissa þætti hrunsins?

Þetta getur orðið knýjandi spurning fyrr en varir.

Í stjórnarsáttmála núverandi stjórnarflokka segir:

„Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.

Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.“

Þetta er bæði gott og sjálfsagt.

En þá er spurningin hvaða þættir málsins verða teknir fyrir í Hvítbókinni.

Í viðskipta- og athafnalífi landsmanna eftir hrun hafa komið fram skýrar vísbendingar um að sumir þeirra, sem mest komu við sögu fyrir hrun bæði innan og utan bankanna, hafi komist frá hruninu með verulega fjármuni sem hafi verið geymdir í öðrum löndum en eitthvað af þeim hafi verið flutt heim á þeim hagstæðu kjörum, sem Seðlabankinn bauð upp á um skeið. Sumt af þessu fé hafi leitað inn í bæði fasteignir, ferðaþjónustu o.fl.

Sú spurning hefur ekki komið til umræðu á Alþingi, hvort þetta sé sjálfsagt. Í bók minni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar – byltingin sem aldrei varð, sem út kom fyrir síðustu jól, er að þessu vikið m.a. með eftirfarandi hætti (bls 183):

„Getur verið, að nú þegar Ísland er að ná sér á strik á ný, sé ýmislegt látið ósagt, sem þyrfti að segja en ekki er sagt af sömu ástæðum samfélagslegrar meðvirkni og fyrir hrun?

Getur verið að „þeir“ – og þá er átt við hina svokölluðu útrásarvíkinga – séu að koma til baka með mikla fjármuni frá útlöndum og hefjast handa við að kaupa aftur fyrirtækin, sem þeir misstu í hruninu?“

Nokkru síðar segir í sama kafla, sem ber heitið Samfélagsleg meðvirkni? (bls. 185):

„Þau álitamál, sem hér er vikið að, hafa nánast ekkert verið rædd í stjórnmálaumræðum á Íslandi. Þau hafa ekki verið rædd á Alþingi eða í sveitarstjórnum, hafi slíka athafnasemi rekið á þeirra fjörur, og lítið sem ekkert í hefðbundnum fjölmiðlum eða á samskiptamiðlum. Þau hafa heldur ekki verið rædd í háskólasamfélaginu, sem þó tekur margt til umræðu, alla vega ekki opinberlega, og það er kannski vegna þess að þar á bæ hafa menn enn ekki gert hreint fyrir sínum dyrum eftir skýrslur sem þar voru samdar og gáfu bönkunum gæðastimpil síðustu misserin fyrir hrun. Líkleg skýring eru hinir innbyggðu veikleikar í samfélaginu sem áður var vikið að. Enginn vildi af þeim sökum vera „leiðinlegur“ síðustu árin fyrir hrun, þótt byrjað væri að koma í ljós hvað væri að gerast. Á sama hátt vill fólk ekki vera með athugasemdir nú við annað fólk, sem hefur líka orðið að þola mikið.“

Nú er ekki ólíklegt að einhver spyrji hvort greinarhöfundur sé að leggja til að þeim sem við sögu komu verði bannað að hasla sér völl í viðskiptalífinu á ný. Um það álitamál er fjallað í þeim bókarkafla, sem hér hefur verið vitnað til, þótt ekki sé komizt að annarri niðurstöðu en þeirri að þessi málefni beri að ræða.

Það er hins vegar staðreynd, að í Bandaríkjunum eru slík ákvæði til í lögum. Á níunda áratug síðustu aldar urðu miklar sviptingar á fjármálamörkuðum vestan hafs. Ein skærasta stjarna þeirra tíma var verðbréfasali að nafni Michael Milken. Hann endaði með því að sitja í fangelsi í tvö ár og var dæmdur í miklar fjársektir og jafnframt var honum bannað fyrir lífstíð að starfa aftur á fjármálamarkaði í Bandaríkjunum.

Milken hefur lagt mikla fjármuni í læknisfræðilegar rannsóknir hin síðari ár.

Einkageirinn er jafnvel miskunnarlausari. Í mörgum löndum í okkar heimshluta er vonlaust fyrir fyrirtæki að skrá sig á markað ef forystumenn þeirra eiga að baki umdeilda fortíð í viðskiptum.

Hér á landi er ljóst að Fjármálaeftirlitið hefur vissar heimildir til að takmarka eignarhluti í fjármálafyrirtækjum.

En spyrja má í tilefni af orðum Theodóru Þorsteinsdóttur, hvort ekki sé ástæða til að þau álitamál, sem hér hafa verið nefnd til sögunnar verði tekin til umræðu í væntanlegri Hvítbók ríkisstjórnarinnar um fjármálamarkaðinn á Íslandi.

Og að þau verði tekin til umræðu á Alþingi og afstaða tekin til þess, hversu langt þingið vilji ganga í þessum efnum, vilji það á annað borð gera eitthvað, hvort sem um er að ræða fjármálafyrirtæki eða aðra starfsemi.

Væntanlega verður ekki ágreiningur um það á þingi eða úti í samfélaginu að mikilvægt er að gagnsæi ríki í þessum efnum og það sé ljóst hvaðan peningarnir koma – ef þeir koma.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is