Forstöðumaðurinn Bergur hefur stýrt Snorrastofu frá upphafi.
Forstöðumaðurinn Bergur hefur stýrt Snorrastofu frá upphafi.
Við erum býsna hátt uppi núna í Snorrastofu, því við vorum að gefa út þrjár bækur í samvinnu við nokkra aðila,“ segir Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, en hann á 60 ára afmæli í dag.

Við erum býsna hátt uppi núna í Snorrastofu, því við vorum að gefa út þrjár bækur í samvinnu við nokkra aðila,“ segir Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, en hann á 60 ára afmæli í dag.

Bækurnar byggjast allar á alþjóðlegum rannsóknum sem Snorrastofa hefur tekið þátt í og heita Snorri Sturluson and Reykholt, The Pre-Christian Religions of the North – 1. bindi, og The Buildings of Medieval Reykholt. The Wider Context, og er Bergur ritstjóri síðastnefndu bókarinnar ásamt Guðrúnu Sveinbjarnardóttur auk þess sem hann er ritstjóri ritraðar Snorrastofu. „Þá erum við með í undirbúningi bók á íslensku um Reykholt í ljósi fornleifa eftir Guðrúnu. Snorrastofa undirbýr nú málþing eftir rúma viku um þýðingar á eddukvæðum og er haldið til að fagna nýjum þýðingum á eddukvæðunum, bæði á norsku og sænsku. Ég er alveg klár á því að áhuginn á íslenskum þýðingum er frekar að aukast heldur en hitt og við erum núna að undirbúa útgáfu á ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson á norsku í samvinnu við hollvinasamtök Snorrastofu í Noregi.“

Utan við hefðbundinn vinnutíma stundar Bergur eigin rannsóknir og er núna að skrifa fyrirlestur um notkun rithöfundarins Henrys Davids Thoreaus á Snorra.

„Thoreau notaði Snorra mikið og vísaði oft í hann, sérstaklega í dagbókum sínum.“

Bergur hefur verið forstöðumaður Snorrastofu frá því að hún hóf reglubundna starfsemi fyrir 20 árum, en hann er með meistaragráðu í forníslenskum bókmenntum. „Ég bý við þann lúxus að búa í Reykholti og okkur hjónum hefur liðið afskaplega vel hér sem og dætrum okkar sem eru fluttar að heiman.“ Kona Bergs er Sigríður Kristinsdóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, og dætur þeirra eru Bergþóra og Vigdís.

„Mér skilst að það eigi að draga mig í einhverja óvissuferð,“ segir Bergur Þorgeirsson, spurður hvað hann ætli að gera í dag í tilefni afmælisins. „Ég veit ekkert meira en það.“