Valborg Soffía Böðvarsdóttir fæddist 18. ágúst 1933. Hún lést 19. febrúar 2018.

Útför Valborgar fór fram 1. mars 2018.

Við vorum átta skólasysturnar sem útskrifuðumst árið 1953 eftir tveggja ára nám frá Uppeldisskóla Sumargjafar sem stofnaður hafði verið árið 1941 í þeim tilgangi að mennta fólk til uppeldis- og stjórnunarstarfa á barnaheimilum. Í skólanum nutum við frábærrar kennslu góðra kennara undir stjórn skólastjórans Valborgar Sigurðardóttur sem lokið hafði meistaranámi í uppeldis- og sálarfræði í Bandaríkjunum. Okkur nemendunum fannst námið, sem var bæði verklegt og bóklegt, bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Þarna mynduðust fljótlega góð tengsl milli okkar skólasystranna sem haldist hafa í gegnum tíðina. Ein í þessum litla hópi var Valborg Soffía sem nú hefur kvatt okkur tæplega áttatíu og fimm ára gömul. Við minnumst margra góðra stunda með henni og skólasystrum okkar fjórum sem áður eru farnar. Þegar leiðir skildi um stund eins og gengur og önnur verkefni tóku við héldust ávallt böndin sem mynduðust í skólanum. Við vorum vanar að hittast mánaðarlega á vetrum í saumaklúbbi á heimilum okkar og á sumrin var stundum farið í skemmtiferðir í sumarbústaði þeirra sem þá áttu. Við skólasysturnar héldum upp á þrjátíu og fimm ára útskriftarafmælið okkar með ferð til Dublinar og sumarið 2003 minntumst við fimmtíu ára afmælisins með nokkurra daga ferð til Verona. Myndir sem þar voru teknar sýna glaðværan hóp sem auðsjáanlega naut samvistanna. Síðan þessi ferð var farin hafa árin liðið hratt og margt hefur breyst. Við minnumst nú allra skemmtilegu stundanna hér áður fyrr með Völlu Fíu, eins og hún var jafnan kölluð. Hún var alltaf glaðvær og hress í anda þegar við hittumst. Í seinni tíð glímdi hún við hinn alvarlega sjúkdóm alzheimer, sem olli því að minni hennar gaf sig smám saman.

Við sendum Magnúsi og öðrum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Pálína, Gyða og Margrét.