Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur: "Við þurfum að leysa hlutina á annan hátt heldur en hefur verið gert hingað til, að mínu mati. Að óbreyttu stefnir í enn meira óefni en þegar er."

Í nýju starfi mínu sem framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu verð ég vör við síaukna þörf fyrir aðstoð við athafnir daglegs lífs bæði hjá eldri borgurum og langveikum sem enginn vill greiða fyrir. Oft er þetta þörf á tímabundinni þjónustu eða úrræðum vegna veikinda eða heilsubrests. Viðkomandi er ekki nægilega veikur til að leggjast inná stofnun en ekki nægilega hraustur til að sinna sjálfum sér, maki, börn og aðstandendur eru aðframkomnir og niðurstaðan er að allir þjást. Jafnframt voru nýlega birtar sláandi niðurstöður rannsóknar næringarfræðings á vannæringu aldraðra í sjálfstæðri búsetu.

Því miður erum við að sjá fram á að vandamálið stækkar og stækkar án þess að tekið sé á því heildstætt.

Það er staðreynd að íslenska þjóðin er að eldast og á næstu áratugum mun verða gríðarmikil fjölgun í hópi eldri borgara. Áherslur ríkisins miðast við að ekki verði fjölgað hjúkrunarrýmum heldur fólki gert kleift að búa sem lengst heima. Til þess að svo megi verða verður þjónustan heim að vera í samræmi við þarfir einstaklinga hverju sinni. Það er líka ljóst að það er langhagkvæmasti kosturinn fyrir samfélagið að hver og einn geti verið áfram heima. Kostnaður við hvert rými á hjúkrunarheimili er um ein milljón króna á mánuði og sjúkrahúsdvöl tvöfalt dýrari. Einnig má segja að bráðaþjónusta sjúkrahúsanna henti ekki öldruðum með langvarandi heilsufarsvandamál. Við sjáum í fjölmiðlum síendurteknar fréttir af óviðunandi ástandi á Landspítala. Við þurfum að leysa hlutina á annan hátt heldur en hefur verið gert hingað til, að mínu mati. Að óbreyttu stefnir í enn meira óefni en þegar er.

Aðrar þjóðir hafa glímt við og glíma við svipaðan vanda og hefur verið horft til breytinga á áherslum hjá þeim. Það er óþarfi fyrir okkur að finna upp hjólið heldur ættum við hiklaust að geta stuðst við þau módel sem hafa verið þróuð þar. Toronto-módelið er allrar athygli vert. Þar er lagt upp með þverfaglega nálgun með vitjunum fagfólks í heimahús þar sem einstaklingnum er mætt á eigin forsendum og reynt að lágmarka eins og kostur er dvöl á stofnun. Viðkomandi fær aðstoð, hvort sem hún er fólgin í félagslegri liðveislu, aðstoð við athafnir daglegs lífs, lyfjagjöf, lækningu eða sjúkraþjálfun. Aðstoðin er einstaklingsmiðuð og mannleg og stofnanavist er síðasta úrræðið.

Ætti slíkt módel heima hér? Svokallað Heimavitjana-módel sem yrði á ábyrgð ríkisins eingöngu eða sveitarfélaganna eingöngu þar sem núningi vegna skilgreininga á heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu væri eytt einstaklingnum í vil. Módelið þarf að innihalda kröfur um þjónustu, gæðavísa og markmið og eftirlit. Við getum hiklaust nýtt samtakamátt einkarekstrar og opinbers rekstrar í þessum tilgangi. Sinnum er tíu ára velferðarþjónustu-fyrirtæki með góða þekkingu og reynslu af samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Sameiginlegt markmið okkar verður að vera að einfalda leiðina í gegnum völundarhús heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins með tilheyrandi töfum á greiningu, meðferð og endurhæfingu og skerðingu á lífsgæðum svo mánuðum eða árum skiptir.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Höf.: Sigrúnu Björk Jakobsdóttur