Yfirgengilegar og óþarfar fyrirspurnir kosta skattgreiðendur stórfé

Píratar hafa lagt töluvert á sig til að rýra virðingu Alþingis og gengið allvel í þeirri baráttu sinni. Framganga þeirra í umræðum á þingi er með þeim hætti að iðulega vekur furðu. Upphlaup út af engu og furðuumræður sem lítinn tilgang hafa einkenna framlag þingmanna flokksins, sem, ásamt þingmönnum systurflokksins, toppuðu sig á dögunum með einhverri vitlausustu vantrauststillögu sem lögð hefur verið fram.

En ræðutími þingsins dugar þeim ekki, þeir þurfa líka að sækja í tíma annarra. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag er fjallað um álag á stjórnsýsluna vegna fyrirspurna frá þingmönnum og er sú umfjöllun umhugsunarverð fyrir þingheim.

Sjálfsagt er og eðlilegt að þingmenn geti kallað eftir upplýsingum frá stjórnsýslunni um það sem máli skiptir til að þeir geti rækt skyldur sínar. Þess vegna er gert ráð fyrir því að þingmenn geti lagt fram skriflegar fyrirspurnir til ráðherra sem láta svo vinna svörin í ráðuneytum sínum.

Fram til þessa hefur þetta yfirleitt verið notað í þokkalegu hófi og eins og eðlilegt getur talist þó að á því hafi að sjálfsögðu verið einhverjar undantekningar. Nú eru píratar hins vegar komnir inn á þing og þá hefur allri hófsemd verið vikið til hliðar og nú hellast fyrirspurnir yfir ráðuneytin sem eru á yfirsnúningi, eins og fram kemur í fyrrgreindri fréttaskýringu.

Einn píratinn nýtur þess vafasama heiðurs að slá öll met í þessu efni og hefur þegar lagt fram 72 fyrirspurnir á yfirstandandi þingi. Ef mið er tekið af svörum ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins um þann tíma sem ætla megi að taki að svara fyrirspurnum, þá taka fyrirliggjandi fyrirspurnir þessa tiltekna þingmanns um það bil eitt mannár hjá stjórnarráðinu. Og þingmaðurinn er örugglega ekki hættur að spyrja.

Sumar spurninga þingmannsins snúast um útgjöld hins opinbera og það er góðra gjalda vert að þingmenn hugi að þeim. Það getur hins vegar farið út í tóma endaleysu, eins og fyrirspurnir umrædds þingmanns sýna. Og þá er eðlilegt að horfa í þann kostnað sem hann veldur í stjórnsýslunni með óhófi sínu. Hið sama gildir að sjálfsögðu um aðra þingmenn sem spyrja til þess eins að spyrja og vekja á sér athygli.

Almenningur, sem kýs þingmenn og greiðir kostnaðinn af störfum þingsins, hlýtur að mega ætlast til þess að þingmenn sýni starfi sínu og annarra meiri virðingu en píratar hafa sýnt. Er ekki kominn tími til að þeir, sem eyða löngum stundum í ræðustóli þingsins til að fjalla um fagleg vinnubrögð, líti sér nær og reyni að vanda sig.