Í Stokkhólmi Ri Yong-ho, utanríkisráðherra N-Kóreu (fyrir miðju).
Í Stokkhólmi Ri Yong-ho, utanríkisráðherra N-Kóreu (fyrir miðju). — AFP
Utanríkisráðherra einræðisstjórnar Norður-Kóreu ræddi við sænska ráðamenn í Stokkhólmi í gær og viðræðurnar renndu stoðum undir fréttir um að Svíar gegndu lykilhlutverki í undirbúningi fyrirhugaðs fundar leiðtoga Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherra einræðisstjórnar Norður-Kóreu ræddi við sænska ráðamenn í Stokkhólmi í gær og viðræðurnar renndu stoðum undir fréttir um að Svíar gegndu lykilhlutverki í undirbúningi fyrirhugaðs fundar leiðtoga Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann Ri Yong-ho ræddi við Stefan Löfven forsætisráðherra og Margot Wallström utanríkisráðherra, viku eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti samþykkti að eiga fund með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.

Haft var eftir sænskum embættismönnum fyrir viðræðurnar í Stokkhólmi að þær myndu snúast um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaganum og fyrirhugaðan fund Trumps og Kim Jong-un. „Það er þörf á viðræðum núna og við erum ánægð með að eiga þennan fund,“ sagði Wallström eftir að hafa rætt við norðurkóreska utanríkisráðherrann. „En við erum ekki grunnhyggin, höldum ekki að við getum leyst vandamál heimsins.“

Leiðtogafundur í Svíþjóð?

Svíþjóð hefur lengi haft tengsl við Norður-Kóreu. Svíar opnuðu sendiráð í Pjongjang árið 1975 og það var fyrsta vestræna sendiráðið í borginni. Það hefur gætt hagsmuna Bandaríkjanna, Kanada og Ástralíu í Norður-Kóreu og gegnt mikilvægu hlutverki í þreifingum milli bandarískra og norðurkóreskra stjórnarerindreka.

Fjölmiðlar víða um heim hafa birt fréttir um að Svíar gegni mikilvægu hlutverki í því að undirbúa fundinn og líklegt sé að hann verði haldinn í Svíþjóð. Embættismenn sænska utanríkisráðuneytisins vildu ekki svara spurningum fréttamanna um þann möguleika, að sögn fréttaveitunnar AFP .