Jóhannes Sigmundsson fæddist 18. nóvember 1931. Hann lést 19. febrúar 2018.

Útför Jóhannesar fór fram 2. mars 2018.

Ég minnist þess ætíð þegar ég sá Jóhannes Sigmundsson í fyrsta sinn. Það var við setningu Unglingamóts HSK í Brautarholti á Skeiðum 1964. Mótið hófst með helgistund. Þá stóð Jóhannes við ræðustólinn með íslenska fánann við hönd sér, teinréttur og tígulegur og vakti athygli okkar unglinganna sem vorum að fara að keppa. Það er helgiljómi yfir þessari mynd af Jóhannesi í huga mér.

Nokkru síðar var hann kjörinn formaður HSK og þá hófst nýr kafli í sögu héraðssambandsins. Ég var svo heppinn að vera í keppnisliði HSK í frjálsíþróttum á þessum árum og minnisstæðar eru keppnisferðir á Snæfellsnes og á landsmótið á Eiðum 1968. Þá voru hinir frábæru æskulýðsleiðtogar Jóhannes og Hafsteinn Þorvaldsson í fararbroddi og það var alltaf gleði og kátína ríkjandi þar sem þeir voru nærri. Allt var þetta á heilbrigðum nótum enda voru þeir bindindismenn og mikil fyrirmynd okkar unglinganna.

Jóhannes var sjálfur góður íþróttamaður og hvatti okkur óspart til dáða en fór mildum höndum um þá sem ekki náðu sínu besta. Alltaf jákvæður. Það var stutt í húmorinn hjá Jóhannesi, hann sagði skemmtilega frá og kastaði fram hnyttilegum vísum sem hittu í mark og virtist ekkert hafa fyrir því. Alltaf þegar hlé var á í ferðalögum var Jóhannes farinn að stjórna leikjum og fimmtugir, sextugir karlar og kerlingar köstuðu ellibelg og hlupu í skarðið eða af sér hornin með unga fólkinu. Jóhannes hafði lag á að fá alla með í leikinn.

Minnisstæð er landgræðsluferðin mikla sem við Skarphéðinsfélagar fórum inn á Biskupstungnaafrétt sumarið 1967. Þar var Jóhannes fremstur í flokki við að sá grasfræi og dreifa áburði á daginn og stjórna skemmtunum á kvöldin. Við vissum það sem vorum í þessari ferð að öllu væri óhætt alls staðar með annan eins fyrirliða í hópnum. Það er mikill ljómi í minningunni yfir þessum ferðum á vegum HSK og þar á Jóhannes sinn ómælda hlut.

Jóhannes var hinn sanni ungmennafélagi og lagði sitt af mörkum á fundum og þingum og í fleiri nefndum og ráðum en hægt yrði að telja upp í stuttri blaðagrein. Hann var kennari og leiðbeindi okkur þeim yngri á jákvæðan og mannbætandi hátt, þó þannig að maður tók eiginlega ekki eftir því að hann væri að segja manni til. Þannig var Jóhannes. Ég hygg að margir hafi svipaða sögu að segja.

Jóhannes var áhugamaður um varðveislu sögunnar og sat í Sögu- og minjanefnd HSK um 40 ára skeið. Þar áttum við gott samstarf þegar ég var að semja 100 ára sögu sambandsins árið 2010. Það kom sér aldeilis vel að hafa slíkan mann í kallfæri sem þekkti vel til sögunnar. Alltaf var hann tilbúinn að veita upplýsingar og leita heimilda, ef hann var þá ekki fyrri til, því það var eins og hann vissi alltaf hvers þyrfti með.

Jóhannes var einstakur mannvinur og hugsjónamaður sem ávallt hafði það að leiðarljósi að láta gott af sér leiða. Ég sé hann fyrir mér; ungmennafélagann glæsilega með íslenska fánann við hönd sér. Blessuð sé hans minning.

Jón M. Ívarsson.