Ein af þeim 72 fyrirspurnum sem Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hefur lagt fram snýst um fyrirspurn sem hann lagði fram á þinginu 2016-2017 og Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, svaraði aldrei.

Ein af þeim 72 fyrirspurnum sem Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hefur lagt fram snýst um fyrirspurn sem hann lagði fram á þinginu 2016-2017 og Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, svaraði aldrei. Þar var Björn Leví að spyrja um upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla varðandi skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Í fyrirspurninni nú vill þingmaðurinn vita hverjar voru helstu tímasetningar í vinnuferli við samningu og afhendingu svars þáverandi forsætisráðherra, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurninni. „Hvaða skýringar eru á þeim langa tíma sem það tók ráðherra að svara umræddri fyrirspurn í ljósi þess að vinnsla svarsins kallaði hvorki á sérstaka gagnaöflun né gagnavinnslu? Hjá hvaða aðila, ef einhverjum, dróst gerð svars við fyrirspurninni, þ.e. hjá yfirstjórn ráðuneytis, öðrum skrifstofum, ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanni ráðherra, ráðherra, eða einhverjum öðrum sem kom að gerð svars?“

Sem fyrr segir var fyrirspurninni ekki svarað og ekki er heldur búið að svara þeirri nýjustu.