Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Sjö árum eftir að stríðið í Sýrlandi hófst bitnar það sífellt meira á börnum og öðrum saklausum íbúum landsins.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Sjö árum eftir að stríðið í Sýrlandi hófst bitnar það sífellt meira á börnum og öðrum saklausum íbúum landsins. „Ekkert lát er á stríðinu með ótrúlegum, óviðunandi og grimmilegum afleiðingum fyrir börn,“ hefur fréttaveitan AP eftir Geert Cappelaere, sem stjórnar hjálparstarfi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Miðausturlöndum. „Þetta er stríð gegn börnum.“

Mjög erfitt er að meta manntjónið í Sýrlandi vegna glundroðans í landinu frá því að stríðið hófst í mars 2011. Mannréttindahreyfingin Observatory for Human Rights, sem fylgist grannt með stríðinu, segir að alls hafi nær 354.000 manns látið lífið í átökunum frá því að þau hófust fyrir sjö árum, þar af 106.390 óbreyttir borgarar. Þeirra á meðal eru 19.811 börn undir átján ára aldri og 12.513 konur.

Rannsóknarskýrsla, sem birt var í breska læknablaðinu Lancet í janúar, bendir til þess að hlutfall barna meðal þeirra sem láta lífið í árásunum hafi aukist á síðustu árum. Um 23% óbreyttu borgaranna sem biðu bana árið 2016 voru börn en á fyrsta ári stríðsins var hlutfallið 8,9%.

Fleiri börn þurfa hjálp

Börnum sem þurfa neyðarhjálp fjölgar einnig. Af um 8,35 milljónum barna í Sýrlandi þurfa um 5,3 milljónir á neyðaraðstoð að halda. Tæpar þrjár milljónir þeirra eru á svæðum þar sem erfitt er að koma nauðstöddum íbúum til hjálpar. Um 419.000 börn eru á svæðum sem eru í herkví, að sögn OCHA, Samræmingarskrifstofu mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Barnahjálp SÞ segir að meira en þrjár milljónir barna undir fimm ára aldri þurfi matvælaaðstoð, þeirra á meðal 20.000 börn sem þjást af alvarlegri vannæringu.

Íbúar Sýrlands voru um 23 milljónir þegar stríðið hófst og a.m.k. 5,4 milljónir þeirra hafa flúið frá landinu, að sögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Embættismenn samtakanna telja að um 6,1 milljón Sýrlendinga til viðbótar hafi hrökklast frá heimkynnum sínum vegna stríðsins og dvelji enn innan landamæra Sýrlands. Um það bil helmingur þeirra, eða 2,8 milljónir, er á barnsaldri.

Hjálparsamtökin Handicap International segja að um þrjár milljónir manna hafi særst í stríðinu, þeirra á meðal mörg börn. Um 1,5 milljónir þeirra sem særðust fötluðust varanlega og þar af þurftu 86.000 að gangast undir aflimun. Samtökin segja að um þriðjungur þeirra sem hafa særst í sprengjuárásum sé á barnsaldri.

Rúmlega þrjár milljónir barna eru á svæðum þar sem hætta stafar af jarðsprengjum og sprengjum sem féllu í loftárásum en sprungu ekki strax. Um 40% þeirra sem hafa látið lífið af völdum slíkra sprengna eru börn, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna.

Stríðið hefur einnig orðið til þess að heilbrigðis- og menntastofnanir í landinu eru í rúst. Um 2,5 milljónir barnanna geta ekki gengið í skóla vegna átakanna.

Þúsundir barna biðu bana í loftárásum

Á vefsíðu Syrian Observatory for Human Rights segir að um 85% þeirra sem liggja í valnum í stríðinu hafi beðið bana í árásum hersveita einræðisstjórnarinnar í Sýrlandi og bandamanna hennar, þ.e. Rússa, Írana, liðsmanna Hizbollah-samtakanna í Líbanon og fleiri vopnaðra hópa.

Að sögn mannréttindahreyfingarinnar hafa rúmlega 25.000 óbreyttir borgarar fallið í loftárásum sýrlenska stjórnarhersins, þar af 5.510 börn. Nær 6.900 óbreyttir borgarar hafa beðið bana í flugskeyta- og loftárásum Rússa, þar af 1.702 börn.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa sakað stjórnarherinn og bandamenn hans um að hafa stuðlað af ásettu ráði að hungursneyð á svæðum uppreisnarmanna eftir að birtar voru myndir af alvarlega vannærðum börnum í Austur-Ghouta sem er í herkví.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að sýrlensk yfirvöld hafi hengt um 13.000 manns í illræmdu fangelsi í grennd við Damaskus á árunum 2011 til 2015. The Observatory for Human Rights telur að enn fleiri, eða að minnsta kosti 60.000 manns, hafi dáið af völdum pyntinga eða slæms aðbúnaðar í fangelsum sýrlenskra yfirvalda. Hreyfingin segir að um hálf milljón manna hafi verið hneppt í fangelsi frá því að stríðið hófst. Nokkur þúsund manna hafi dáið í fangelsum íslamista og annarra hreyfinga sem hafa barist gegn sýrlensku einræðisstjórninni.

Tugir þúsunda flúðu
» A.m.k. 70.000 manns hafa flúið af tveimur átakasvæðum í Sýrlandi síðustu tvo daga.
» Hermt er að um 40.000 manns hafi flúið frá Austur-Ghouta sem er á valdi uppreisnarmanna og hefur verið í herkví í um fimm ár.
» Að minnsta kosti 57 óbreyttir borgarar létu lífið í árásum rússneskra herflugvéla á tvo bæi í Austur-Ghouta, að sögn mannréttindahreyfingarinnar Syrian Observatory for Human Rights (SOHR).
» Alls hafa rúmlega 1.300 óbreyttir borgarar beðið bana í árásum á Austur-Ghouta frá 18. febrúar, um fimmtungur þeirra börn.
» Hermt er að rúmlega 30.000 manns hafi flúið frá Afrin-borg í norðurhluta Sýrlands vegna sprengjuárása Tyrkja. 27 óbreyttir borgarar létu lífið í árásunum í gær og fyrrakvöld, að sögn SOHR.