Julian Nelson
Julian Nelson
Hamar náði í gærkvöld undirtökunum í einvíginu við Snæfell í undanúrslitunum um úrvalsdeildarsæti í körfuknattleik karla með því að vinna fyrsta leik liðanna í Hveragerði, 106:93.

Hamar náði í gærkvöld undirtökunum í einvíginu við Snæfell í undanúrslitunum um úrvalsdeildarsæti í körfuknattleik karla með því að vinna fyrsta leik liðanna í Hveragerði, 106:93. Hamar var yfir í hálfleik, 61:42, og var ekki í vandræðum með að halda fengnum hlut í seinni hálfleiknum.

Julian Nelson var öflugur í liði Hamarsmanna en hann skoraði 28 stig, tók 11 fráköst og átti fimm stoðsendingar. Jón Arnór Sverrisson skoraði 17 stig og Dovydas Strasunskas 16.

Hjá Snæfelli var Sveinn Arnar Davíðsson atkvæðamestur með 19 stig en Viktor Marinó Alexandersson var með 15 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Christian Covile gat ekki leikið með Snæfelli en hann þurfti að fara heim af persónulegum ástæðum. Vonast Hólmarar eftir því að hann nái öðrum eða þriðja leiknum en liðin mætast öðru sinni í Stykkishólmi á mánudagskvöldið. vs@mbl.is