Styrmir Haukdal Kristinsson fæddist 19. ágúst 1977. Hann lést 13. febrúar 2018.

Útför Styrmis fór fram 26. febrúar 2018.

Elsku Styrmir. Ég á ekki mörg eða merkileg orð, enda vorum við sammála um að orð gerðu oftast lítið úr því sem maður finnur í sálinni. Sorg er í brjósti en líka þakklæti fyrir tímann sem vegir okkar lágu saman og fyrir að hafa fengið að vera hluti af yndislegu fjölskyldunni þinni. Þótt leiðir okkar hafi legið hvors í sína áttina var sálartengingin alltaf til staðar eins og máninn á himnum og ég get varla ímyndað mér hvernig heimurinn á að vera ef þú ert ekki lengur í honum. Það logaði alltaf í þér fallegur vonarneisti þótt lífsvegur þinn hafi oft verið erfiður í gegnum grýtta og dimma dali. Í gegnum suma þeirra urðum við samferða en við lékum okkur líka í gleðinni og sælu ástarinnar eins og börn og einmitt þá sá ég best inn í hreina og tæra hjartað þitt. Þú elskaðir skilyrðislaust, það er ekki öllum gefið. Þú varst vinur vina þinna og vildir hjálpa þeim sem minna máttu sín og voru beittir misrétti. Ég veit ekki hvernig ég get lýst því á annan hátt en að allt hafi einhvern veginn orðið öðruvísi þegar mér var beint til þín. Ég gerði mér grein fyrir að engar tilviljanir eru á vegi lífsins þegar þú opnaðir hjarta þitt fyrir mér og hleyptir mér inn í ævintýraheiminn þinn þar sem ég sá ekki lengur heiminn í gegnum gler svarthvítra andstæðna heldur opnaði augun fyrir litbrigðum tilverunnar. Þú varst seiðmaður og listamaður af Guðs náð, predikari, prakkari, ljón og lítill drengur, stormur og blankalogn undir stjörnubjörtum nóvemberhimni í norðri. En umfram allt varstu stríðsmaður gæddur persónutöfrum sem vöktu athygli hvar sem þú komst. Þú varst einstakur og minningin um þig dvelur í hjörtum margra sem þú snertir með fallegri sál. Mitt er eitt af þessum hjörtum. Takk fyrir að gefa mér nýja sýn á veröldina og opna huga minn og hjarta fyrir töfrum lífsins, sorgum þess og sigrum og ómannlegum styrk kærleikans. Það er huggun í því að vita að þú dvelur nú í friði og ró umvafinn ástvinum þar sem hin dimma nótt sálarinnar er liðin og eilífur dagur tekinn við, ilmandi af lofnarblómi, þar til þú ert tilbúinn í bardaga næstu jarðvistar. En ég veit líka að þú lætur vita af þér af og til þegar krummi krunkar úti og kallar á nafna sinn. Þar til við sjáumst hinum megin, Máni biður að heilsa, ást og friður.

Elsku Lóa mín og Ivan, Kiddi, Ragna og Kalli, Eva Lilja og Sara Sóley, Guð geymi ykkur og umvefji styrk og óendanlegum kærleika.

Þín

Linda.