Borgarhliðið Holsteintor, St. Petrikirkjan og saltgeymslurnar.
Borgarhliðið Holsteintor, St. Petrikirkjan og saltgeymslurnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lübeck hlýtur að teljast með fallegri borgum Evrópu. Mestur hluti gamla borgarkjarnans á hólmanum þar sem árnar Trave og Wakenitz mætast var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987, en borgarmyndin þar hefur að miklu leyti haldist óbreytt frá 14.

Lübeck hlýtur að teljast með fallegri borgum Evrópu. Mestur hluti gamla borgarkjarnans á hólmanum þar sem árnar Trave og Wakenitz mætast var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987, en borgarmyndin þar hefur að miklu leyti haldist óbreytt frá 14. öld Texti og myndir: Ómar Óskarsson omarscz@simnet.is

Borgin var stofnuð árið 1143. Staðurinn var vandlega valinn með tilliti til varna og möguleika til verslunar og siglinga á Eystrasalti. Heinrich der Löwe, hertogi af Sachsen, tók yfir borgina árið 1159. Hvatti hann kaupmenn og handverksmenn til að flytja til borgarinnar og hét vernd og víðtækum verslunarréttindum. Kaupahéðnar flykktust til borgarinnar sem stækkaði ört. Friðrik annar keisari staðfesti síðan sérstöðu Lübeck árið 1226 með lögum um að borgin væri frjáls og óháð og heyrði einungis undir keisara Þýsk-rómverska ríkisins.

Allt skyldi byggt úr steini

Eftir nokkra stórbruna í Lübeck var lögfest að byggja skyldi öll hús úr steini. En jarðvegur í Norður-Þýskalandi er víða heppilegur fyrir múrsteinaframleiðslu. Hafið var að reisa dómkirkjuna í rómönskum stíl árið 1173. Seinna kom gotneski stíllinn til sögunnar og þróaðist þá fallegur byggingastíll sem þjóðverjar nefna „Backsteinsgotik“. Það eru háreist og skrautleg múrsteinsgaflhús. Gaflinn mikið skreyttur og gjarnan tröppulaga meðfram þakinu. Gluggarnir með oddboga að ofan. Maríukirkjan er dæmigerð fyrir þennan byggingarstíl, en hún er ein stærsta múrsteinskirkja heims með 38,5 metra lofthæð í miðskipi, en turnarnir tveir teygja sig í 125 metra hæð. Kirkjan var fullgerð árið 1350. Byggingarstíllinn í Lübeck varð fyrirmynd annarra borga við Eystrasaltið. Útlit gaflhúsanna fylgdi síðan tískustraumum í byggingarlist í aldanna rás.

Fleiri borgir í Norður-Þýskalandi urðu frjálsar verslunarborgir í kjölfarið og stofnuðu þær formlega Hansasambandið árið 1358. Af þeim ber helst að nefna Hamborg, Bremen, Wismar, Greifswald, Rostock, Danzig, Münster, Stralsund, Lüneburg og Köln auk Lübeck sem var öflugasta borgin og varð í reynd höfuðborg sambandsins. Nánast árlega mættu fulltrúar Hansaborganna til þings sem oftast var haldið í ráðhúsinu í Lübeck. Þar samræmdu kaupmenn verslunarleiðangra, en gjarnan var farið í skipalestum til að verjast sjóræningjum sem voru mikil plága, einkum á Eystrasalti. Hansakaupmenn töldu að sumir sjóræningjanna væru á mála hjá Danakonungi. Ráðhúsið glæsilega sem var byggt í áföngum milli 1350 og 1594 stendur að mestu óbreytt að utan, en hinum fræga fundarsal Hansakaupmanna hefur verið skipt í minni herbergi. Ráðhúsið er opið gestum með leiðsögn.

Tenging við Hamborg

Árið 1398 var lokið við að grafa Stecknitz-skipaskurðinn sem tengdi saman Lübeck og Hamborg svo ekki þurfti lengur að sigla gegnum dönsku sundin. Borgirnar tvær komu á mjög náinni samvinnu, þannig að siglingar og verslun um Eystrasalt fór í gegnum Lübeck, en siglingar um Norðursjó og vestur á bóginn gegnum Hamborg. Frá Novgorod og öðrum borgum við austanvert Eystrasalt komu skinn, hunang, vax, raf og timbur, salt frá námunum í Lüneburg, saltsíld frá Skáni, harðfiskur frá Bergen, kopar og járn frá Svíþjóð, vefnaðarvörur og vopn frá Ghent og Brügge o.s.frv. Viðskiptasambönd Hansaborganna náðu þegar best lét til um 200 borga og bæja í Norður-Evrópu. Meðal annars stunduðu Hansakaupmenn verslun á nokkrum stöðum á Íslandi frá um 1470 til ársins 1602 þegar Danir komu á einokunarversluninni. Á sextándu öld fór að halla undan fæti hjá Hansakaupmönnum í kjölfar landafundanna í Vesturheimi og harðari samkeppni við Hollendinga og Englendinga. Síðasti fundur Hansasambandsins var haldinn í ráðhúsinu í Lübeck 1669.

Sjö spíra borgin

Lübeck er þekkt í Þýskalandi sem sjö spíra borgin. Er þar vitnað til sjö hárra kirkjuturna á fimm helstu kirkjunum á miðborgarhólmanum. Aðfaranótt pálmasunnudags 29. mars 1942 varð borgin fyrir loftárásum bandamanna. Flestar kirkjurnar skemmdust mikið. Þegar turn St. Petri-kirkjunnar var endurbyggður eftir stríð var opnaður rúmgóður útsýnispallur með lyftu í 50 metra hæð. Þar er nú besti útsýnisstaður borgarinnar.

Lübeck nútímans er friðsæl og falleg borg þar sem hægt er að gleyma sér við að ganga um og skoða glæsibyggingar sem eru við hvert fótmál í gamla borgarhlutanum. Allt er í göngufæri á innan við hálftíma. Varla er hægt að hugsa sér þægilegri borg að skoða. Nokkur söfn eru í borginni, það nýjasta er „Europäisches Hansemuseum“ eða Hansasafnið sem opnað var 2015. Þar er fjallað um sögu og þróun Hansasambandsins á helstu tungumálum sem komu við sögu á áhrifasvæði Hansakaupmanna, þýsku, ensku, sænsku og rússnesku. Sögusafn borgarinnar er í báðum turnum Holstentor, borgarhliðsins fræga sem prýddi bakhlið 50 marka seðilsins fyrir tíma evrunnar.

Bókmenntaunnendur geta litið inn í Buddenbrookhaus við Mengstrasse 4. Þar er safn til minningar um rithöfundinn Thomas Mann og fjölskyldu hans. Við Glockengiesserstrasse 21 er safn um nóbelsskáldið Günter Grass sem lést árið 2015. Grass hafði haft forgöngu um að koma á fót safni við Königstrasse 21 um Willy Brandt fyrrverandi kanslara Vestur-Þýskalands og borgarstjóra Vestur-Berlínar á tímum kalda stríðsins. Brandt fæddist í Lübeck árið 1913 og hét þá Herbert Ernst Carl Frahm. Hann flúði til Noregs þegar nasistar komust til valda og tók þá upp nafnið Willy Brandt. Hann lést árið 1992.

Merkasta veitingahús borgarinnar og líklega það besta er „Schiffergesellschaft“ eða félagsheimili sjófarenda sem starfrækt hefur verið frá árinu 1535 við Königstrasse 2. Hátt er til lofts í stórum dimmum salnum sem er lítið breyttur frá sextándu öld. Veggir, loft og bekkir eru úr dökkum viði. Innanstokks minnir allt á skip og siglingar fyrri tíma. Frá loftinu hanga haganlega gerð líkön af skipum frá fyrri öldum. Gott úrval er á matseðlinum. Einnig er lögð áhersla á þýsk gæðavín. Á sólríkum sumardegi er tilvalið að skreppa í „Paulaner am Dom“ við Kapitelstrasse 4-6, sem er steinsnar frá dómkirkjunni. Dæmigerður bjórgarður sem býður upp á ódýra, en góða bæverska rétti, svo sem Schweinshaxe (reyktur grísaskanki) og Schnitzel í ýmsum útgáfum sem skola má niður með ljúffengum Paulaner bjór frá München.

Miðstöð marsipansins

Virðulegasta kaffihúsið er Niederegger á annarri hæð við Breitestrasse 89, andspænis ráðhúsinu. Ef maður nær sæti við vesturgluggann er þar fallegt útsýni til ráðhússins og Maríukirkju. Á jarðhæðinni er marsipanstórverslun. Þar er mikið úrval af marsipankonfekti í gjafapakkningum af öllum stærðum og gerðum. Á nítjándu öld varð Lübeck ein helsta miðstöð marsipanframleiðslu í Þýskalandi. Johann Georg Niederegger hóf framleiðslu árið 1806. Fyrirtækið er það elsta starfandi í greininni og er nú rekið af áttundu kynslóð eigenda. Ef tertan fyllir ekki nógu vel út í eftir heimsóknina hjá Niederegger er hægt að fá sér marsipanís á leiðinni út. Hann svíkur engan.