Soffía Sigurjónsdóttir fæddist 7. september 1925. Hún lést 12. febrúar 2018.

Útför Soffíu fór fram 27. febrúar 2018.

Nú er veröldin breytt! Amma Soffía er fallin.

Okkur langar að kveðja hana með nokkrum orðum, eða eins og ég og við sáum hana. Hún amma okkar var jaxl af Guðs náð og margt og mikið til lista lagt. Hún hélt stórt heimili á árum áður með afa mínum og nafna fyrst í Laugarneskampinum, en lengst af í Ásgarði 15 ásamt níu börnum og mér. Ég var þarna og Soffía systir svo líka með mömmu þar til við fluttum í Snælandið, þegar mamma og pabbi fóru að búa, en ég var alltaf með annan fótinn hjá ömmu og afa svona eins og grár köttur.

Amma var mér alltaf góð og okkur systkinunum, já og bara öllum, nema þegar hún gaf mér hræring. Amma var lagin í höndunum og afkastamikil, saumaði föt, gardínur og allt annað sem þurfti og gerði við allt sem þurfti nál og tvinna við. Hún var nú sjaldan verklaus. Kerlingin prjónaði eins og tími var til á barnabörnin og sérstaklega á seinni árum þegar barnabarna- og barnabarnabörnin komu í heiminn eitt af öðru og þurftu að fá fallega fyrstu flík. Svo vann amma líka úti með þessu öllu, hún var t.d. önnur af tveimur fyrstu póstfreyjunum í Reykjavík, borginni sem hún fæddist í. Svo vann hún líka í Ofnasmiðjunni við Háteigsveg og ýmislegt fleira, matráðskona í vegavinnuflokki Bjarna tengdaföður síns, þá bæði við vegagerð um Selvog og svo í Kömbunum.

Hún amma var sein til við bílprófið, tók það seint eða upp úr fertugu og lærðum við hjá sama ökukennara, ég reyndar svolítið seinna. Það má orða það sem svo að þegar hún keyrði var bensínpedallinn hafður í alveg láréttri stöðu og bremsur ekki notaðar fyrr en á síðustu stundu og þá allhressilega. En svona var bara hún amma, allt gert með trukki og dýfu. Hún amma var tvígift, fyrst afa Eiði, en hann dó 1982, og svo afa Bjössa, en hann dó 2006. Amma var nú frekar lífsglöð kona og leiddist að vera ein, hún hafði gaman af því að spila, bæði vist og kana og fékk eiginlega aldrei nóg af því og ofurlítið í tána með. Hún hafði líka gaman af því að hlusta á okkur afkomendurna syngja á góðum stundum, en það var eitt af því fáa sem amma gat ekki gert sjálf þó að hún reyndi nú stundum t.d. lagið við gengum tvö, en hún sagði nú alltaf við sitjum tvö, orðin ellimóð kerlingin, sögðum við þá en fengum gjarnan einhver blótsyrði sem svar. Eitt af því síðasta sem við systkinin gerðum fyrir ömmu var að syngja fyrir hana, og þótti okkur notalegt að hún gaf okkur merki um að hún meðtók sönginn með því að kreista á okkur hendurnar.

Amma vildi ekki fara á elliheimili því það var bara fyrir gamalt fólk, heldur bjó hún ein í sinni íbúð, sat og stóð eins og hún sjálf vildi alveg framundir það síðasta en þá með aðstoð. Hún var nú alltaf frekar sjálfstæð kona og drífandi, hafði skoðanir á mörgu, var berorð og stundum um of en þá þurfti maður bara að svara í sömu mynt og byrja spjallið aftur. Við kveðjum ömmu Soffíu með þakklæti í hjarta og fallegar minningar um frábæra konu.

Sjáumst síðar, elsku amma.

Kveðja frá

Eiði Ottó, Soffíu, Sesselju (Settu) og Elfu Björk Bjargarbörnum.