Árni Pétur Guðbjartsson fæddist 20. janúar 1943. Hann lést 20. febrúar 2018.

Útför Árna fór fram 2. mars 2018.

Elsku bróðir minn, nú hefur þú kvatt þetta líf, og þú háðir harða baráttu við þennan hræðilega sjúkdóm sem svo marga hefur lagt að velli.

En ég dáðist að æðruleysi þínu sem þú sýndir alveg fram á síðustu stundu, enda varstu alltaf eins og klettur í lifanda lífi og dugnaður þinn og þitt hlýja hjartalag sem einkenndi þig alla tíð mun fylgja okkur öllum sem kynntumst þér á lífsleiðinni. Ég man er við vorum börn fyrir vestan, þá var ýmislegt brallað og oftast fékk ég að elta ykkur eldri bræðurna er þið voruð að leik og oft háskaleg uppátæki, enda voruð þið mínar fyrirmyndir í öllu. Þið leyfðuð mér oftast nær að vera með þótt ég væri þetta yngri en þið. Ég veit að það kostaði ykkur oft ærna fyrirhöfn að hafa mig í eftirdragi en þið senduð mig heim þegar þið voruð að fara að prófa eitthvað sem hefði getað reynst ykkur hættulegt, hvað þá mér svo mikið yngri, en þið voruð alltaf með velferð mína í huga.

Oft reyndi ég að hylma yfir með ykkur þegar var farið að ganga á mig um það hvar þið væruð en var ofurliði borin af foreldrum okkar sem þekktu ykkur af því að ef ég var send heim þá stæði eitthvað til sem væri ekki alveg í lagi.

Þessar minningar eru ansi margar og ljúfar um ævintýri okkar í barnæsku, það væri of langt mál og af svo mörgu að taka elsku bróðir minn, en þú verður alltaf í minningunni hinn góði og sanni bróðir sem þú varst mér alla tíð.

Hafðu þökk fyrir allt, Árni minn. Hvíl í friði og Guð geymi þig.

Elsku Alla mín, við vottum þér og fjölskyldu þinni allri okkar innilegustu samúð og Guð styrki ykkur og styðji.

Eygló og Sævar.