[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta var alveg mögnuð upplifun. Á þessu námskeiði sá maður að okkar sterkasta vopn í löggæslu núna er menntun og tækjabúnaður.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta var alveg mögnuð upplifun. Á þessu námskeiði sá maður að okkar sterkasta vopn í löggæslu núna er menntun og tækjabúnaður. Það er mikilvægt að fylgja eftir tækninni og mennta fólkið okkar,“ segir Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður og sérfræðingur á sviði blóðferla í tæknideild lögreglunnar.

Ragnar sótti á dögunum námskeið hjá hinum virtu samtökum The Association for Crime Scene Reconstruction í Bandaríkjunum. Auk þess að sækja fyrirlestra og sitja í málstofu sat hann tvö námskeið, annars vegar um skotstefnurannsóknir og hins vegar um notkun þrívíddarskanna við rannsókn á upprunasvæði blóðferla.

„Þetta voru þrír heilir dagar og kvöld. Ég var ekkert æstur að fara heim,“ segir Ragnar en kvöldunum var varið í að þátttakendur lögðu mál fyrir kollega sína. Annað hvort er um upplýst mál að ræða eða mál sem eru til rannsóknar og leita þeir þá aðstoðar hinna sérfræðinganna. Ragnar lagði rannsóknir sínar úr umfangsmiklu sakamáli sem skók þjóðina fyrir kollega sína og mæltust þær vel fyrir.

„Það að geta staðið þarna fyrir framan 76 sérfræðinga og farið yfir málið án þess að fá eina athugasemd um að eitthvað hefði mátt gera betur eða eitthvað hefði mátt betur fara er sannarlega klapp á öxlina fyrir okkur á deildinni. Enda reyndi þessi rannsókn á ofboðslega marga þætti. Við vorum öll meira og minna á kafi í tvo mánuði og skiluðum af okkur 3-400 blaðsíðum af gögnum,“ segir hann.

Meðal annarra mála sem kollegar Ragnars tóku til umfjöllunar var hryðjuverkaárásin í Stokkhólmi fyrir ári síðan. „Það var Svíi þarna sem fór yfir það og það var mjög flott hvernig þeir unnu það. Þeir skönnuðu þessar götur með þrívíddarskanna og svo gat maður farið eftir leið vörubílsins á tölvuskjá. Það var rosalega flott,“ segir Ragnar en alls voru átta mál til umfjöllunar, hvert öðru hryllilegra að sögn Ragnars.

Að námskeiðinu og fyrirlestri Ragnars loknum var honum boðin innganga í The Association for Crime Scene Reconstruction. Samtökin rekja sögu sína aftur til 1991 og í þeim eru sérfræðingar á sviði glæpa- og vettvangsrannsókna. Alls eru um 200 félagsmenn í samtökunum, flestir Bandaríkjamenn en að undanförnu hefur færustu rannsakendum í öðrum löndum verið boðin innganga. Ragnar viðurkennir að sér sé mikill heiður sýndur.

„Já, þetta er stóra sviðið. Það getur ekkert hver sem er labbað þarna inn. Ég fæ inngöngu af því ég hef starfað sem blóðferlasérfræðingur í 15 ár og er viðurkenndur sem vitni fyrir Hæstarétti.“

Tengslanetið mikilvægt

Hann segir að það mikilvægasta við samtökin sé tengslanetið. „Nú er ég kominn með 200 tengiliði sem ég get sent tölvupóst eða hringt í og fengið aðstoð. Tengslanetið er svo ofboðslega mikilvægt. Ég hef verið að segja vinnufélögunum að ég fari ekki einn á næsta námskeið. Fingrafarasérfræðingar og brunasérfræðingar okkar eiga að koma líka og hitta aðra sérfræðinga. Það er svo mikilvægt að geta sest niður og farið yfir mál. Ég sá til dæmis þarna að í gömlu máli okkar voru atriði sem við hefðum getað farið öðruvísi að. Það hefði ekki haft áhrif á niðurstöðuna eða rannsóknina, við hefðum bara getað gert aðeins betur.“

Hvernig kemur það til að þú verður sérfræðingur á sviði blóðferla?

„Þetta byrjaði árið 2001. Þá var ég í tæknideild en hafði áður verið í ofbeldisbrotadeild. Eitt af hlutverkum þar var að sinna andlátsrannsóknum. Mig langaði að bæta mig á þessu sviði og fann námskeið í lögregluháskóla í Flórída, Death and Injury Investigation, sem hljómaði áhugavert. Þetta var stórgott námskeið og þarna var heill dagur tileinkaður blóðferlum. Meðal annars með rannsakanda sem hafði verið 20 ár í NCIS, hernum. Ég varð bara svo heillaður af þessu. Þetta er svo mikil áskorun. Þú kemur á vettvang og einhver er látinn. Gerandinn er ekki á staðnum. Þú hefur enga frásögn um atburðarás en blóðið getur sagt þér heilmikið um hvað gerðist, hvernig það gerðist og hvað gerðist ekki. Það er svo rosaleg áskorun,“ segir Ragnar og bendir á að þetta fag krefjist þess að maður fylgist vel með til að viðhalda þekkingunni. „Þú þarft að komast í mál, lesa mál til að sjá hvað menn voru að gera og af hverju þeir voru að gera það.“

Ragnar hefur nú starfað í 17 ár í tæknideild lögreglunnar og segist hafa lært eitthvað nýtt á hverju einasta ári, sótt námskeið og fleira. Hann er í forsvari fyrir norrænan hóp blóðferlasérfræðinga og fundaði með þeim í Helsinki á dögunum.

„Við vorum að setja okkur reglur. Árið 2020 eiga nefnilega allar tæknideildir í Evrópu að vera orðnar ISO-vottaðar. Allt verklag. Það er því verið að leggja línurnar fyrir þetta núna, til að mynda að enginn vinni við greiningar nema hann hafi ákveðna menntun og reynslu, og svo framvegis. Ég fer í hæfnispróf á næstunni þar sem ég fæ sendan disk með mynd af blóðugum mynstrum. Svo á ég að útskýra hvað er að sjá á myndunum og hvað hafi gerst. Er þetta dropi í dropa, er þetta yfirfærslublettur?“ segir Ragnar og bendir á að ekki sé auðvelt að íslenska öll hugtök og heiti í blóðferlafræðunum.

Hann viðurkennir fúslega að hann sjái hlutina ekki sömu augum og aðrir vegna þessarar vinnu sinnar.

„Nei, þegar ég kem á einhvern stað og það er mikið blóð þá segja flestir að þetta sé nú hræðilegt. Það fyrsta sem ég hugsa er að þetta sé nú áhugavert,“ segir hann og hlær.

Hvað með sjónvarpið, er ekki erfitt að horfa á sakamálaþætti og sjá vinnubrögðin einfölduð og afbökuð?

„Jú, ég held að ég sé ekki skemmtilegasti félaginn til að horfa á sjónvarpsþætti og bíómyndir með. Ég er reyndar aðeins farinn að læra að bíta bara stundum á jaxlinn og þegja.“

Hvað með íslenska sjónvarpsþætti, eru þeir raunverulegir?

„Þeir eru á leiðinni þangað. Mér finnst þeir hafa tekið miklum framförum,“ segir Ragnar sem einmitt hefur starfað sem ráðgjafi við sjónvarpsþætti á borð við Ófærð, Hamarinn, Hraunið og Rétt auk kvikmyndarinnar Ég man þig. „Mér finnst gaman að vinna með skapandi fólki,“ segir hann um þessa vinnu.

Spennandi þrívíddarskannar

Morð eru sem betur fer ekki daglegt brauð á Íslandi og því sinnir Ragnar fjölbreyttum rannsóknum um allt land, eins og aðrir í tæknideild lögreglunnar.

„Við erum í hverjum einasta mánuði viðstödd krufningar. Það er alveg sama hversu oft maður kemur niður á Barónsstíg – það skal alltaf vera eitthvað nýtt sem maður er að sjá eða læra.“

Hefur verkefnum fjölgað?

„Já. Nú síðast var verið að fjalla um lyfjadauðsföll. Það er merkjanleg fjölgun í því að fólk sé að taka of stóra skammta. Svo er skrítið, í ekki stærri borg, að við erum að fara á hverju einasta ári í fólk sem er búið að vera látið lengi. Það er líka fjöldi sjálfsvíga, ungt fólk sem er að gefast upp. Mér finnst ágætt að minna á þessa setningu: Gefðu morgundeginum tækifæri. Sofðu á þessu, sjáðu hvernig þú vaknar á morgun.“

Ekki má heldur gleyma auknum fjölda ferðamanna hingað. „Það eru öll umferðarslysin, sumir hrapa í sjóinn og sumir koma hingað til lands til að deyja. Það eru nokkur þannig tilvik á hverju einasta ári.“

Þegar Ragnar er spurður um nýjustu vendingar í glæparannsóknum segir hann að þrívíddarskannar séu mest spennandi.

„Það eru allir komnir með þrívíddarskanna núna. Þarna úti fengum við að sjá handskanna sem var eins og iPad, þú horfir bara á það sem þú ert að skanna. Þeir nota þetta til dæmis ef það finnst lík í vegkanti. Þá skanna þeir vettvanginn og eftir þrjár mínútur geta þeir skoðað líkið og vettvanginn frá öllum hliðum. Þetta er með ólíkindum.

Það þurfti öll embættin á landinu til að fjármagna skannann sem við eigum. Verkefnum hefur fjölgað eftir að hann kom til sögunnar hjá okkur enda er gríðarlega gott að geta skannað vettvang. Hvert skann tekur svona 4-5 mínútur og við tökum kannski 6-7 skönn á hverjum slysavettvangi. Svo komum við hingað inn á tæknideild og erum fljótir að raða saman mynd af vettvanginum. Þetta verður bara eins og ljósmynd í þrívídd og það er gott að geta heimsótt vettvanginn aftur.“

Ragnar viðurkennir það fúslega að hann myndi vilja sjá betri tækjakost við rannsóknir sínar. „Það er ekkert launungarmál að draumur minn er að tæknideildin verði sjálfstæð ef verkefnunum heldur áfram að fjölga.“