Áræðinn Kári Jónsson setti niður fimm þriggja stiga skot í gær.
Áræðinn Kári Jónsson setti niður fimm þriggja stiga skot í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Kristján Jónsson kris@mbl.is Landsliðsmaðurinn Kári Jónsson lék sinn fyrsta leik í liðlega fjórar vikur þegar Haukar náðu 1:0 forystu í rimmu sinni gegn Keflavík í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik.

Á Ásvöllum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Landsliðsmaðurinn Kári Jónsson lék sinn fyrsta leik í liðlega fjórar vikur þegar Haukar náðu 1:0 forystu í rimmu sinni gegn Keflavík í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Kári var stigahæstur með 24 stig í 83:72 sigri Hauka en leikið var í Hafnarfirði.

Ekki var hægt að greina að Kári hefði ryðgað við fjarveruna og hann var áræðinn í sínum aðgerðum. Þumalfingur hægra handar sem brotnaði var teipaður, væntanlega til að halda stuðningi við fingurinn, en ekki var að sjá að brotið háði Kára. Hann kom til dæmis af og til með boltann fram völlinn og þurfti þá líka að nota hægri höndina til að rekja boltann þótt örvhentur sé.

Með Kára heilan heilsu eru Haukar eins líklegir til að verða Íslandsmeistarar og aðrir. Enda varð liðið deildameistari. Ýmis rök hníga að því að Haukar gætu náð sínum fyrsta sigri á Íslandsmóti karla í þrjátíu ár. Vopnabúrið er veglegt og ekki þarf endilega að treysta á einn mann því margir leggja í púkkið, þótt vissulega sé Kári mikilvægur eins og hér hefur verið stiklað á. Liðið getur auk þess spilað fína vörn eins og það sýndi í fyrri hálfleik í gær þegar Keflvíkingar skoruðu ekki nema 31 stig gegn 44 stigum Hauka. Þá skyldi ekki vanmeta hversu mikilvægt það er fyrir Haukaliðið að hafa farið í úrslitin 2016 þótt þeir hafi tapað þá. Með því að dreifa álaginu eins og Haukar hafa gert í vetur þá ætti það að reynast vel þegar lengra er komið í úrslitakeppninni þar sem þétt er leikið.

En fyrst þurfa Hafnfirðingar að slá út Keflvíkinga sem hafa verið ólíkindatól í vetur. Þeir voru ekki sérstaklega ferskir þetta kvöldið og baráttugleðin hefur oft verið meiri. Ég hef á tilfinningunni að Friðrik Ingi Rúnarsson muni kveikja neistann sem þarf hjá sínum mönnum og Keflavík muni sýna allt aðra og betri frammistöðu á heimavelli sínum í næsta leik liðanna. Leikstjórnandi landsliðsins, Hörður Axel Vilhjálmsson, hafði til dæmis hægt um sig í sókninni sem og Magnús Már Traustason. Þá lenti Guðmundur Jónsson í villuvandræðum þegar hann fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta. Þessir leikmenn þurfa vitaskuld að standa sig til að Keflavík geti slegið út Hauka.

Sigur Hauka var öruggari en úrslitin gefa til kynna því Keflavík saxaði á forskotið á lokamínútum leiksins. Um tíma í síðari hálfleik var forskotið að nálgast tuttugu stig.