— Skjáskot/A Plastic Ocean
Ég horfði á heimildarmynd á Netflix sem heitir Plastic Ocean. Við áhorf myndarinnar varð ég fyrir hálfgerðu áfalli. Hvað verður um næstu kynslóðir og fæðukeðjuna okkar ef þessi plastmengun í hafinu heldur áfram?

Ég horfði á heimildarmynd á Netflix sem heitir Plastic Ocean. Við áhorf myndarinnar varð ég fyrir hálfgerðu áfalli. Hvað verður um næstu kynslóðir og fæðukeðjuna okkar ef þessi plastmengun í hafinu heldur áfram?

Við verðum að bregðast við strax, áður en það er orðið of seint. Mengunin er orðin svo alvarleg að hvalir, skjaldbökur, fuglar og ungarnir þeirra drepast í hrönnum mjög kvalafullum dauðdaga. Jafnvel fiskurinn í sjónum er farinn að éta plast í miklu magni og er að drepast vegna þess.

Plast er mjög auðendurvinnanlegt og það er hægt að endurvinna það með því að vinna úr því díselolíu. Það er byrjað í Þýskalandi og næstum því allt plast er endurunnið þar. Þetta er nokkuð sem við Íslendingar getum auðveldlega gert.

Ég sá einnig frétt á BBC 1 um það hvernig hægt er að minnka notkun plastbolla í „take away“ frá kaffihúsum. Við gætum tekið höndum saman og komið með okkar eigin kaffimál sem eru fjölnota. Þau eru þegar til í þó nokkrum verslunum. Í Bretlandi eru þeir byrjaðir á þessu og þeir sem koma með sín eigin kaffimál á kaffihúsin fá afslátt af kaffinu.

Þetta sparar kostnað kaffisalanna og okkar allra. Það mætti þar að auki innleiða eitthvað slíkt á „take away“-stöðum sem selja mat. Ef við bregðumst við núna og tökum höndum saman getum við jafnvel snúið þessari hræðilegu þróun við.

Ég mæli líka með því að styrkja samtökin sem gerðu myndina. Þessi samtök eru að reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að gera eitthvað í málunum. Þau eru með vefsíðu, http:www.plasticocean.org.

Svandís Ásta Jónsdóttir