Karakterar „Ég byrjaði á þessari teikningu hér á Íslandi í fyrra og fannst rétt að hún kæmi aftur til landsins,“ segir Elizabeth Peyton um teikninguna sem hún gerði út frá frægri teikningu Michelangelos af Andrea Quaretesi.
Karakterar „Ég byrjaði á þessari teikningu hér á Íslandi í fyrra og fannst rétt að hún kæmi aftur til landsins,“ segir Elizabeth Peyton um teikninguna sem hún gerði út frá frægri teikningu Michelangelos af Andrea Quaretesi. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Algleymi heimsandans er heiti sýningar á verkum eftir bandarísku myndlistarkonuna Elizabeth Peyton sem verður opnuð í Kling & Bang í Marshall-húsinu kl. 17 í dag, laugardag.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Algleymi heimsandans er heiti sýningar á verkum eftir bandarísku myndlistarkonuna Elizabeth Peyton sem verður opnuð í Kling & Bang í Marshall-húsinu kl. 17 í dag, laugardag. Peyton hefur undanfarna tvo áratugi verið ein skærasta stjarnan í heimi samtímamálverksins, einkum þekkt fyrir portrett af fólki, vinum jafnt sem fólki úr sögu og dægurmenningu, í nútíð sem fortíð.

„Ég vann þessi verk að mestu fyrir þessa sýningu hér,“ segir Peyton þegar við skoðum portett hennar og kyrralífsmynd með blómum. „Þannig vinn ég yfirleitt, hef sýningarstaðinn og samhengið í huga og það hefur einhver áhrif á verkin.“

– Og eins og sjá má hér þá skiptirðu afar lipurlega milli forma, hér eru olíumálverk, vatnslitamynd og teikning, og grafíkverk: einþrykk, dúkristur og ætingar.

„Þar sem ég hafði aldrei sýnt hér áður þá langaði mig að vera með verk í öllum þessum formum. Mér þótti ekki rétt að sýna bara málverk.

Ég færi mig sífellt milli þessara miðla. Oft bregst ég við hugmyndum að myndum með því að fara fyrst með þær á prentverkstæðið. Síðan fer ég með prentin í stúdíóið og legg til atlögu við málverk með sömu hugmynd. Þar vinn ég alltaf ein, enginn fær að vera á vinnustofunni með mér; ég hreinsa penslana mína og mála grunnana líka sjálf.“

– Þú ert þekktust fyrir portrett af fólki sem sumt er tengt þér en mörg byggjast líka á fundnu myndefni.

„Það er satt. Það geta verið mörg lög í þessum verkum og oft líður langur tími frá því að ég fæ hugmynd að mynd og þar til ég hrindi henni í framkvæmd. Ég þarf ekki að lýsa öllum smáatriðum á fólkinu sem ég mála, rýmið sem ég læt ósnert skiptir til dæmis máli.

Ég vil vissulega fanga karakterinn, eins og í verkunum hér af listhlauparanum á skautum.“ Hér vísar Peyton til mynda á sýningunni af Yuzuru Hanyu sem hún hreifst af í útsendingum frá Vetrarólympíuleikunum. „Ég reyni að ná mörgu inn í verkin en hafa þau líka létt og opin, svo áhorfandinn sjái ekki vinnuna bak við þau. Ég þarf, eins og aðrir listamenn, að finna leið mína við að skapa listaverk. Það er ekki eins og maður finni formúlu sem geri þetta fyrir mann. Eins og Bruce Nauman sagði, þá þurfum við sífellt að finna upp hjólið. Það er eitt að hafa tæknilega hæfileika en það að fanga töfra í verkunum er allt annað mál...“

– Þú málar líka kyrralíf en þar, eins og í portrettunum, tekst þér að hafa nálgunina splunkunýja.

„Ég er á lífi núna. Fólk nýtur þess alltaf að horfa á myndir af öðru fólki, og umhverfi eins og blómin, og það hljóta að vera leiðir til að færa það inn í listmuni sem lifa áfram. Málverk eru góðir geymslustaðir fyrir þessar tilfinningar. Sem listamaður verð ég að geta treyst því að ég geti fært þetta líf og umhverfið inn í verkin og geti sagt eitthvað um leið um hvað það er að vera á lífi.“