[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Alls 106 félagsmenn í Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, gátu ekki kosið í formannskosningum félagsins í vikunni.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Alls 106 félagsmenn í Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, gátu ekki kosið í formannskosningum félagsins í vikunni. Um er að ræða félagsmenn sem greiða full gjöld í félagið en teljast aukafélagar í skilningi laga Matvís. Í lögum félagsins er kveðið á um að aukafélagar skuli hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en njóti ekki atkvæðisréttar og kjörgengis. Á vettvangi Matvís hafa ekki verið haldnar formannskosningar í tæp 29 ár og því mun stór hópur félagsmanna hafa uppgötvað fyrst í nýafstöðnum kosningunum að þeir væru ekki með atkvæðisrétt. „Þetta olli gremju hjá stórum hópi sem komst að því í kosningunni að þeir væru búnir að borga, einn frá 1988 til dæmis, sem hafði ekki hugmynd um að hann hefði engan rétt til að kjósa,“ segir Ágúst Már Garðarsson, sem bauð sig fram til formanns Matvís í kosningunum. „Þetta eru félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld og eru menntaðir matreiðslumenn og þjónar og fullgildir að öðru leyti. Þetta er skilgreining sem Matvís hefur búið til og kallast aukafélagi yfir þá sem þeir segja að vinni ekki vinnu eins og lýst er í kjarasamningum.“

Reglan illa framkvæmd

Ágúst segir að þetta fyrirkomulag hljóti að þykja mjög merkilegt og bar hann það undir fundarstjóra frá ASÍ á fundi félagsins. „Hann viðurkenndi fúslega að þetta væri merkilegt og þyrfti að skoða betur en vildi ekki svara hvort þetta stæðist lög ASÍ á aðalfundi. ASÍ skyldaði í raun ekki aðildarfélög sín í svona málum,“ segir Ágúst. „Ljóst er að flestir sem hafa lent í þessu spyrja sig hvort þetta standist lög. Þeir hafa félagsgjöld af fólki og hafa það síðan inni á skilyrtum reglum. Það sem er merkilegt líka er að það sátu sölumenn í fyrirtækjum hlið við hlið og einn gat kosið og annar gat ekki kosið. Þannig að eftirfylgdin virðist ekkert sérstök heldur. Þannig er þetta skrýtin regla og svo er hún illa framkvæmd.“

Aukafélagar fullmeðvitaðir

Níels Sigurður Olgeirsson, fyrrverandi formaður Matvís, segir hins vegar að þeim sem séu aukafélagar í félaginu ætti að vera fullljós staða sín. „Ég hef alltaf látið menn vita ef þeir eru ekki að vinna samkvæmt kjarasamningi. Þá eru þeir ekki fullgildir hjá okkur. Ég stóð í þeirri meiningu að menn væru meðvitaðir um þetta en að þeir vildu vera í Matvís þrátt fyrir það. Svo kemur eitthvað upp á núna þegar það koma kosningar en það hefur ekki verið formannskosning hjá okkur í 29 ár,“ segir Níels. Hann bendir á að aukafélagar njóti ýmissa réttinda og fríðinda þrátt fyrir að starfa ekki samkvæmt kjarasamningi. „Við erum með kokka hjá okkur sem eru á sjó á fiskiskipum. Við erum ekki með samningsrétt við fiskiskipin. Þegar sjómannaverkfallið var fóru þeir í verkfall, okkar félagar, þó að við gætum ekki samið fyrir þá og nutu þeir verkfallsbóta hjá okkur.“ Hann bendir jafnframt á að um leið og Matvís myndi semja fyrir þessa hópa myndu þeir njóta fullra réttinda. „Stór hópur manna er til dæmis sölumenn og það hefur verið umræða um að gera kjarasamninga vegna þeirra. Einn frambjóðandi var með það á stefnuskrá hjá sér.“

Níels segir að lokum að það geti ekki hafa verið stór hópur manna sem vissu ekki af því að þeir hefðu ekki atkvæðisrétt. „Hvað varðar þessa 106 held ég að langstærsti hluti þeirra viti mæta vel að þeir séu aukafélagar og ekki kjörgengir. Langflestir þeirra eru klárir á því að þeir eru að borga vinnuréttargjald, njóta þess sem félagið býður upp á, komast í orlofshúsin, kaupa sér tryggingar úr sjúkrasjóði og hafa ýmis önnur réttindi.“