Ólafía Aradóttir fæddist 5. apríl 1938. Hún lést 22. febrúar 2018.

Útför Ólafíu fór fram 3. mars 2018.

Elsku Lóa amma mín. Ég er svo þakklát fyrir nafnið þitt sem ég fæ að bera. Síðan ég man eftir mér hef ég stolt sagt frá því að ég sé nefnd í höfuðið á henni ömmu minni, henni Guðríði Þuríði Ólafíu Aradóttur sem ávallt var kölluð Lóa.

Af þér lærði ég svo margt; að hlæja og hafa gaman, að spjalla við fólk á förnum vegi, að húlla hring, en enginn var betri að húlla en þú, elsku amma. Að elska söng og samkomur, því félagslyndari manneskju er vart hægt að finna. Ferðalög ykkar afa höfðu djúpstæð áhrif á mig og ég man að ég dáðist alltaf af ævintýrum ykkar hvort sem það var til Havaí eða Grænlands, eða allt þar á milli.

Ég vona bara að ég nái að gera nafninu þínu nógu góð skil. Að lifa lífinu með sömu jákvæðni, þrautseigju og lífsgleði þótt á móti blási. Ég er svo þakklát fyrir að vera nafna þín og svo þakklát fyrir að hafa átt þig fyrir ömmu.

Ég sakna þín, elsku amma, en ég veit að afi tekur vel á móti þér í Vonarlandinu hinum megin.

Elín Lóa.

Kæra vinkona, ekki datt mér í hug að ég fengi þær fréttir að þú værir farin í ferðina löngu. Þú sem varst alltaf svo hress og glæsileg á velli. Við kynntumst í Gaggó á Ísafirði í þriðja bekk. Ég þekkti þig ekki þá en við lentum sem sessunautar og úr því urðum við bestu vinkonur. Við vorum ólíkar, ég meira til baka en þú alltaf eldhress og jákvæð og mjög félagslynd, það vissu allir hver Lóa Ara var.

Við gerðum allt saman eins og vinkonur gera og sögðum hvor annarri allt og við gerðum margt skemmtilegt. Eins og þegar okkur datt í hug að við yrðum að eignast hjól og keyptum okkur ný sænsk forláta hjól og byrjuðum á að hjóla út í Bolungarvík, það var skemmtileg ferð og auðvitað fórum við í fleiri ferðir á þessum fákum. Í 4. bekk var sett upp heljarinnar árshátíð og við nokkrar stelpur ákváðum að setja á stofn hljómsveit sem við kölluðum Hvin og hvelli, það var mjög skemmtilegt. Við undirbjuggum okkur vel og saumuðum á okkur búninga sem gerðu mikla lukku. Við sungum t.d. Selju litlu og leituðum til Jóns frá Hvanná sem aðstoðaði okkur með mikilli ánægju með það hvernig við ætluðum að flytja lagið. Þetta tókst mjög vel og ekki síst þín vegna, sem lifðir þig inn í trommuspilið og lá við að þú hoppaðir í stólnum og áhorfendur kunnu vel að meta þetta, svo vel að við vorum fengnar til að skemmta á nokkrum stöðum í framhaldi. Það var líka sett upp leikrit þar sem þú varst í aðalhlutverki og stóðst þig auðvitað mjög vel. Auðvitað komu strákar við sögu og við fórum að stunda böllin. Við fórum að vinna eftir skóla og vorum alltaf sömu samlokurnar.

En einn daginn kom glæsilegur maður í bæinn beint frá Ameríku. Þetta var hann Jón þinn, myndarlegur og flottur í tauinu og fljótlega var kominn nýr glampi í augun á þér og ég vissi að þú varst fallin fyrir honum Nonna þínum, hann var líka traustur og góður maður. Enda var það vel valið, þið áttuð vel saman. Nokkru seinna fluttir þú suður og ég saknaði þín mikið, þetta voru ómetanleg ár.

Við höfðum alltaf samband lengi vel sem varð strjálla eftir því sem árin liðu því oft var langt á milli okkar en þegar við hittumst var eins og við hefðum hist í gær.

Elsku Lóa mín, þú varst einstök manneskja, heil í gegn, heilsteypt og heiðarleg og alltaf skemmtileg. Þegar kemur að leiðarlokum þá kveð ég þig með þökk og virðingu. Ég votta börnunum þínum og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Ég kveð þig með þessu fallega ljóði:

Síst vil ég tala um svefn við þig.

Þreyttum anda er þægt að blunda

og þannig bíða sælli funda –

það kemur ekki mál við mig.

Flýt þér, vinur, í fegri heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.

(Jónas Hallgrímsson)

Helga Guðmundsdóttir.

Elskuleg vinkona mín, Ólafía Aradóttir, er nú fallin frá. Mig langar til að minnast hennar nokkrum orðum og þakka henni það samstarf sem við áttum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Við vorum báðar í stjórn Styrktarfélags fatlaðra á Vestfjörðum um árabil og var hún gjaldkeri félagsins en undirrituð gegndi formennsku. Félagið var nýstofnað þegar ég gekk í það með mikinn baráttuvilja fyrir málefnið. Þar tók gott fólk á móti mér og þar kynntist ég Ólafíu. Á þessum árum var engin þjónusta við fatlað fólk á Vestfjörðum og mikið verk óunnið við að fá hana á heimaslóðir. Farið var í kynningarferðir um alla Vestfirði, ýmiskonar fjáraflanir og fundi og þá reyndist nú gjaldkerinn betri en enginn. Hún, þessi hæglætiskona, var félaginu sá klettur sem við þurftum og var föst fyrir þegar á reyndi. Félagið var um tíma það fjölmennasta á Vestfjörðum, það fékk mikinn meðbyr og ég leyfi mér að halda því fram að stjórnin sem sat þessi ár hafi unnið mikið og gott starf í þágu fatlaðra á svæðinu. Félagið naut stuðnings þorra fólks og fyrirtækja á Vestfjörðum. Við áttum digra sjóði sem við nýttum til uppbyggingar Bræðratungu og færðum síðar ríkinu að gjöf. Þá gjöf þakkaði ríkið með því að skella Bræðratungu í lás tuttugu árum síðar og loka þar með heimili sem stofnað var fyrir fatlað fólk af fólki með hugsjónir eins og Ólafía og Kristinn Jón maður hennar höfðu.

Ég hef áður sagt það einhversstaðar að af þeim sem ég hef kynnst í réttindagæslu fyrir fatlað fólk þá eru það þeir sem engra persónulegra hagsmuna hafa að gæta sem gefa baráttunni aukið vægi. Þannig voru þau hjón Ólafía og Kristinn Jón sem gáfu endalaust af sér og alltaf var hægt að leita til, hún í félaginu okkar og hann í byggingarnefnd Bræðratungu og síðar í Svæðisstjórn um málefni fatlaðra þar sem hann vann óeigingjarnt og gott starf, ráðagóður og glöggur. Nú eru þau gengin til góðra verka annars staðar.

Við hjónin kveðjum Lóu Ara með virðingu og þökk fyrir öll hennar störf og samvinnu og sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Hildigunnur Lóa

Högnadóttir.