[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í vandræðaganginum í kringum leiftursókn enskunnar inn á málsvið íslenskunnar og netfíkn snjallsímakynslóðarinnar gleymist að dást að einum höfuðkosti netvæðingarinnar: hvers kyns þekkingar- og fróðleiksmolar um málfar þurfa ekki lengur að þvælast fyrir...

Í vandræðaganginum í kringum leiftursókn enskunnar inn á málsvið íslenskunnar og netfíkn snjallsímakynslóðarinnar gleymist að dást að einum höfuðkosti netvæðingarinnar: hvers kyns þekkingar- og fróðleiksmolar um málfar þurfa ekki lengur að þvælast fyrir okkur. Nær öllu má fletta upp á netinu með aðstoð leitarvélarinnar Google ®, íslenskuvandræði leysast iðulega með því að fara á málið.is og þegar hendingar eða vísubrot brjótast um í huganum má oft finna það sem upp á vantar á bragi.info með því litla sem maður man úr vísunni.

Mörg helstu vandræði föður míns hefðu gufað upp á snöggu augabragði ef hann hefði haft aðgang að netinu. Á langri ævi spurðist hann til dæmis reglulega fyrir um hvort nokkur kannaðist við vísu sem byrjaði svona: „Bakkus sá bölvaður rakki, / borar í innyflin skorur“. Hann gekk fyrir lærðustu menn á Landsbókasafni og handritadeildinni, Árnastofnun og Orðabókinni en allt kom fyrir ekki. Þegar honum fannst viðeigandi að fara með þessa vísu strandaði hann því alltaf eftir þessar tvær hendingar. Og þrátt fyrir að þær geymi mikinn vísdóm einar og sér er augljóst að framhaldið vantar.

Þegar þannig hefur staðið á hef ég stundum leitað að upphafshendingunni á netinu – í minningu föður míns – en aldrei orðið nokkuð ágengt fyrr en mér hugkvæmdist að leita eftir því sem á eftir kemur. Þá beindi leitarvefurinn bragi.info mér óðara að Skagfirðingum og Vísnasafni Sigurðar J. Gíslasonar. Þar er vísan í fullri lengd og kennd Bjarna Þórðarsyni skáldbónda á Siglunesi á Barðaströnd (1761-1842):

Bakkus er bölvaður rakki

borar í innyflin skorur.

Vitið og frama burt flæmir

fólið í heilann ber veilur.

Grófustu hnéspora grefur

geðið í skónálum meður.

Mér létti stórum að fá loks botn í þetta vandamál sem hefur bagað mig lengi. En mér varð líka hugsað til þess að hér væri komin enn ein sönnunin fyrir því hvað Vestfjarðakjálkinn væri langt utan áhugasviðs latteliðsins hér fyrir sunnan, og því ekki að undra að fyrir vestan teldu menn sig geta farið sínu fram í fiskeldi sem öðru án þess að sérfræðingar að sunnan væru með slettirekuskap útaf skelfiski og einhverjum bröndum í sprænum í Djúpinu. Næst varð mér starsýnt á orðið hnéspora í vísunni og ákvað að reyna að finna út hvað það merkti. En greip í tómt á netinu.

Þá rifjuðust upp orð og orðasambönd sem herra Google ® hefur aldrei heyrt um: kjammavatn var mikið tekið við rakstur á mínu æskuheimili inni við Sundin blá, og kona að austan segist hafa heyrt það í sinni heimabyggð; Belgjagerðarúlpur voru vinsæl flík á síðustu öld en koma hvergi fyrir í leitarbærum textum né gagnagrunnum, og í Kinninni fyrir norðan sagði Þórhallur bóndi á Halldórsstöðum ævinlega að við skyldum segja þetta önd þegar honum þótti nóg starfað við heyskap eða girðingar. Enn er því verk að vinna við orðtöku í okkar sprelllifandi tungumáli.

Gísli Sigurðsson