„Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari.“ Af vefsíðu Menntamálastofnunar, mms.

„Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari.“

Af vefsíðu Menntamálastofnunar, mms.is

Upphaflega var lagt upp með að samræmd próf væru stöðupróf, til að auðvelda nemendum að bæta árangur sinn. Á síðasta ári var ákveðið að framhaldsskólum væri heimilt að kalla eftir niðurstöðum prófanna við inntöku nýnema. Tilkynnt var um þessa breytingu degi áður en prófin voru lögð fyrir nemendur í 9. og 10. bekk og vakti það hörð viðbrögð kennara og skólastjórnenda því þótt fæstir framhaldsskólar líti til eða óski eftir einkunnum úr samræmdu prófunum er þessi möguleiki fyrir hendi, að einkunnir samræmdu prófanna séu viðbótargögn þar sem valið er á milli nemenda þar sem mikið er um umframumsóknir. Skólameistari vinsælasta framhaldsskólans, Verslunarskóla Íslands, hefur lýst því yfir að þrátt fyrir að í fyrra hafi skólinn gefið það út að hann myndi mögulega styðjast við einkunnir úr samræmdu prófunum sé raunin ekki sú núna.

Þegar í ljós hafi komið að hver og einn nemandi átti að senda inn samræmdu einkunnirnar sjálfur en skólinn ekki fengið þær sendar frá MMS hafi þetta verið marklaust og skólinn ákveðið að hætta þessu.

Enn sem komið er er þetta þó heimilt samkvæmt lögum en í viðtali við Morgunblaðið sagði Arnór Guðmundsson, forstjóri MMS, að þessi reglugerð, sem kom upphaflega frá menntamálaráðuneytinu, væri í endurskoðun og fyrirætlanir um að taka hana alveg út.

„Mér líst rosalega vel á að taka þetta ákvæði út. Samræmdu prófin eru núna lögð fyrir í 9. bekk til að nemendur eigi að geta metið stöðu sína og hafa heilt ár til að bæta sig. Eitt ár er heil eilífð á þessum aldri og manneskja sem klárar 10. bekk er allt önnur en sú sem klárar 9. bekk.

Þetta setti skólastarfið í mikið uppnám á síðasta ári en upplýsingagjöf skorti víða. Til dæmis var ritun ekki á samræmda prófinu í fyrra og það var ákveðið aðeins nokkrum dögum áður en prófið var lagt fyrir en við kennarar höfðum eytt miklum tíma í að einmitt undirbúa þau fyrir þann þátt, krakkarnir voru búnir að fá þjálfun á lyklaborð spjaldtölvu því þau kviðu því að þurfa að skrifa á tölvuna. Sá undirbúningur var svo ekki til neins.

Samræmdu prófin eru sögð eiga að vera könnunarpróf, skoða hvar nemandinn er staddur, en óhjákvæmilega setur svona stórt próf allt starf úr skorðum með gríðarlegum undirbúningi sem fer í þetta. Það eru alls kyns tæknileg atriði sem þarf að huga að; redda tækjum, hlaða þau, skipuleggja stofurnar, fá mannskap í yfirsetu. Krakkarnir vilja líka vera vel undirbúin fyrir próf, þau vilja kennslu sem miðar sérstaklega að prófinu. Það fer því mikill tími úr hefðbundnu skólastarfi til að læra fyrir þetta eina próf, sem er ekki í nokkrum takti við það sem aðalnámskrá segir varðandi kennsluhætti; þeir eigi að vera fjölbreyttir og skólinn sé án aðgreiningar.“

Helga Birgisdóttir kennari