Hvorugur bæjarfulltrúanna, Björn Bjarnason kommúnisti né Jónas Jónsson framsóknarmaður, lifðu til að sjá Ráðhús Reykjavíkur rísa við Tjörnina.
Hvorugur bæjarfulltrúanna, Björn Bjarnason kommúnisti né Jónas Jónsson framsóknarmaður, lifðu til að sjá Ráðhús Reykjavíkur rísa við Tjörnina. — Morgunblaðið/Heiddi
Björn Bjarnason, bæjarfulltrúi Kommúnistaflokksins, flutti tillögu um það fyrir réttum áttatíu árum, að bæjarstjórn Reykjavíkur mótmælti þeirri „hlutdrægni“ útvarpsins að segja frá því, að Jónas Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins,...

Björn Bjarnason, bæjarfulltrúi Kommúnistaflokksins, flutti tillögu um það fyrir réttum áttatíu árum, að bæjarstjórn Reykjavíkur mótmælti þeirri „hlutdrægni“ útvarpsins að segja frá því, að Jónas Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, ætlaði að tala um byggingu nýs ráðhúss. Þetta væri gert í áróðursskyni fyrir ákveðinn flokk. Var Björn hinn byrstasti, að sögn Morgunblaðsins.

Á fundi bæjarstjórnar kvaðst Jónas enga tillögu ætla að flytja um málið, og hann vissi ekki hvort hann myndi gera það síðar, þá helst til að skipa nefnd í málið, því sennilega væri ekki ráðlegt að gera neitt í málinu, nema að ákveða hvar ráðhúsið ætti að vera, þegar það kannski einhvern tíma yrði byggt. Því sem stæði væri líklega enginn byggingameistari til, sem fær væri um að taka málið að sér.

Þá flutti Jónas dagskrártillögu um það, að vísa tillögu Björns frá, þar sem bæjarstjórn réði ekki fréttum útvarpsins, og hann hefði ekki beðið fyrir fréttina. Þótti bæjarfulltrúum þessar umræður skipta heldur litlu máli og voru báðar tillögurnar felldar.