Dularfull saga Ameliu Earhart hefur lifað með kynslóðum en flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937. Nýlega var staðfest að bein sem fundust á eyðieyju séu líkamsleifar hennar. Margar kenningar um hvarfið hafa verið á lofti.
Dularfull saga Ameliu Earhart hefur lifað með kynslóðum en flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937. Nýlega var staðfest að bein sem fundust á eyðieyju séu líkamsleifar hennar. Margar kenningar um hvarfið hafa verið á lofti.
Ráðgátan um hvarf flugkonunnar Ameliu Earhart virðist leyst. Sérfræðingar telja 99% líkur á að bein sem fundust á eyðieyju í Kyrrahafi séu hennar. Dulúð hefur legið yfir þessari ráðgátu í rúm áttatíu ár.

Sagan af hvarfi Ameliu Earhart hefur ætíð verið sveipuð dularfullum ævintýrablæ. Þessi einstaka kona gerði tilraun til þess að verða fyrsta konan til þess að fljúga í kringum heiminn en flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi og var talið að hún hefði farið í sjóinn. Nú er hins vegar næsta víst að bein sem fundust á Kyrrahafseyjunni Nikumaroro séu af þessari ævintýrakonu sem fæddist seint á næstsíðustu öld.

Það var 2. júlí 1937, nálægt Howlandeyju í Kyrrahafinu, að hún og siglingafræðingurinn Fred Noonan, hurfu og ekkert hefur spurst til þeirra síðan. Fyrr en nýlega.

Beinin tilheyra Earhart

Þremur árið eftir hvarfið, árið 1940, fannst beinagrind á eyjunni Nikumaroro, en frá 1998 hafa samtökin TIGHAR (International Group for Historic Aircraft Recovery) freistað þess að sanna að um sé að ræða líkamsleifar Earhart. Bresk yfirvöld töldu beinin ekki tilheyra konu, en beinin voru skoðuð árið 1941 af dr. D. W. Hoodless, yfirmanni læknaskólans á Fiji, sem sagði þau vera af karlmanni. Beinin týndust í kjölfarið og það var ekki fyrr en árið 1998 að TIGHAR komst yfir skýrslurnar sem innihéldu mælingar á beinunum.

Richard Jantz, prófessor við Tennessee-háskóla, stýrði nýrri rannsókn á skýrslum með mælingum beinanna. Flórída-háskóli greindi fyrst frá niðurstöðunum en Jantz komst að því að beinin væru af konu af sömu hæð og uppruna og Earhart. Jantz notaði upplýsingar um líkamsbyggingu Earharts og bar saman við mælingar á beinunum. Þessi greining sýndi að Earhart passar betur við Nikumaroro beinin en 99% fólks í samanburðarhópi. Gamlar ljósmyndir og jafnvel fatnaður hennar var notaður, en hann hafði verið geymdur í öll þessi ár. Eftir allar þessar mælingar komst Jantz að þeirri niðurstöðu að beinin gætu aðeins tilheyrt Earhart.

Ein á eyðieyju

Margt bendir til að Earhart hafi ekki farist við lendingu á sjónum. Á síðasta ári greindi TIGHAR-teymið frá því að Earhart hefði sent frá sér fleiri en 100 neyðarsendingar dagana 2.-6. júlí 1937, sem sannar þá að hún var á lífi eftir lendinguna. Þykir líklegt að öldurnar hafi hrifið vélina með sér og hún því ekki sést þegar leit var gerð.

Á eyjunni fundust merki um að kveikt hefði verið í bálköstum á svæðinu þar sem beinin fundust. Einnig fundust bein úr fiskum og fuglum sem talið er að Earhart hafi lifað á í vikur, jafnvel mánuði.

Talið er að Noonan hafi látist við lendingu eða stuttu síðar, því aðeins fundust bein af einni manneskju. Earhart hefur því verið ein á eyðieyju þar til hún lést.

Varð hún bensínlaus?

„En það er heill lokakafli í lífi Earhart sem fólk hefur ekki vitneskju um. Hún varði dögum, mögulega mánuðum, í hetjulegri baráttu sem skipbrotsmaður,“ sagði Ric Gil-lespie, framkvæmdastjóri TIGHAR.

„Við teljum að hún hafi lifað hetjulega, og ein, um tíma, við hræðilegar aðstæður. Sagan þarf hins vegar að vera rétt,“ segir hann.

Ef Earhart hefði tekist áætlunarverkið og komist fljúgandi umhverfis hnöttinn hefði henni verið hampað sem hetju. En með því að hverfa sporlaust varð sagan af henni viðvarandi ráðgáta og spruttu upp ýmsar skemmtilegar getgátur í gegnum tíðina.

Ein var sú að Japanar hefðu tekið hana höndum og notað flugvélina hennar, Lockheed 10E Electra, sem módel fyrir bardagavélina Zero. Önnur kenning er að hún hafi komist óséð til Bandaríkjanna og hafi lifað lífi sínu undir fölsku nafni.

Þriðja kenningin var að hún hefði verið njósnari fyrir bandarísk stjórnvöld og að forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, hefði vitað að hún væri í haldi Japana en þagað yfir því.

Svo er auðvitað leiðinlegasta kenningin; að hún hafi hreinlega orðið bensínlaus.

Það eru auðvitað einhverjir efasemdarmenn sem ekki trúa því að beinin á eyðieyjunni tilheyra Earhart. En þá vaknar ný spurning:

Hver bar beinin þarna?