Lokið Rauði krossinn þakkar ríkinu samstarfið í tilkynningu sinni.
Lokið Rauði krossinn þakkar ríkinu samstarfið í tilkynningu sinni. — Morgunblaðið/Ófeigur
Samningar milli Rauða kross Íslands og íslenska ríkisins um rekstur sjúkrabíla verða ekki endurnýjaðir.

Samningar milli Rauða kross Íslands og íslenska ríkisins um rekstur sjúkrabíla verða ekki endurnýjaðir. Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að samningaviðræður Rauða krossins og heilbrigðisráðuneytisins um rekstur sjúkrabíla hafi staðið yfir sl. þrjú ár. „Á síðustu vikum hefur orðið ljóst að stjórnvöld og ráðuneyti vilja taka yfir rekstur sjúkrabíla á næstu árum og því hefur Rauði krossinn á Íslandi ákveðið að slíta samstarfinu,“ segir í tilkynningunni.

Rauði krossinn á Íslandi hefur átt og rekið sjúkrabíla í 90 ár, deildir Rauða krossins víða um land voru stofnaðar í kringum kaup á sjúkrabílum. Fyrstu 70 árin rak Rauði krossinn sjúkrabílana einn en síðustu 20 ár samkvæmt samningi við íslenska ríkið með rekstri Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins. Rauði krossinn á nú 78 sjúkrabíla sem staðsettir eru víðsvegar um landið. Tekur Rauði krossinn fram að rekstur Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins hafi verið afar hagkvæmur. Enginn arður hefur verið tekinn úr sjóðnum og settur í önnur verkefni, ef rekstrarafgangur hefur verið hefur hann verið nýttur til fjárfestinga í nýjum bílum, tækjum og tólum. mhj@mbl.is