[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2018 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Ef ekkert óvænt kemur upp á eru 21 af þeim 29 leikmönnum sem Heimir Hallgrímsson valdi í gær á leið á HM í Rússlandi.

HM 2018

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Ef ekkert óvænt kemur upp á eru 21 af þeim 29 leikmönnum sem Heimir Hallgrímsson valdi í gær á leið á HM í Rússlandi. Landsliðsþjálfarinn tilkynnti þá hvaða leikmenn færu með til Bandaríkjanna í síðustu tvo vináttulandsleiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu áður en sjálfur HM-hópurinn verður valinn. Ísland mætir Mexíkó 23. mars og Perú 27. mars, landsliðum sem bæði verða á HM og eru fyrir ofan Ísland á styrkleikalista FIFA.

Valið á HM-hópnum verður tilkynnt hinn 11. maí. Alls verða 23 leikmenn í þeim hópi, en 12 leikmenn valdir á sérstakan varamannalista sem hægt verður að nota til að breyta hópnum fram til 4. júní. Eftir það má aðeins breyta hópnum vegna meiðsla.

Ef við gefum okkur það að Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason, sem ekki fara til Bandaríkjanna vegna meiðsla, verði í HM-hópnum er ljóst að átta af þeim sem fara í þessa ferð munu ekki komast með til Rússlands. Reyndar sagði Heimir við mbl.is í gær að fleiri kæmu til greina, og á blaðamannafundi nefndi Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari sérstaklega þá Arnór Smárason og Rúnar Má Sigurjónsson, en fyrst þeir komust ekki í 29 manna hóp núna held ég að möguleikar þeirra á að fara á HM séu hverfandi. Í þessu sambandi má nefna að Eiður Smári Guðjohnsen og Rúnar Már fóru með á EM 2016 þrátt fyrir að hafa ekki verið valdir í mars-leikina það ár, en þá voru aðeins 24 leikmenn valdir í mars-leikina auk þess sem Ólafur Ingi Skúlason meiddist, sem skapaði rúm fyrir Rúnar.

En hverjir munu í maí detta út úr hópnum sem valinn var í gær? Þar ríkir mikil óvissa um ástandið á Kolbeini Sigþórssyni, sem spilaði síðast landsleik í 8-liða úrslitum EM fyrir næstum tveimur árum. Kolbeinn var valinn í þessa ferð, í engri leikæfingu, og það undirstrikar í hve miklum metum framherjinn er að hann komist þannig í lið sem vann sinn undanriðil fyrir HM án hans. Enda veit hver Íslendingur sem fæddur er fyrir 2016 hve dýrmætur Kolbeinn getur reynst sé hann klár í slaginn.

Hvar er mesta samkeppnin?

Byrjum samt á markvörðunum. Svo óvanalega vill til að fimm markmenn voru valdir, og Anton Ari Einarsson sagður nálægt því að komast inn, og er samkeppnin mjög jöfn. Hannes hefur verið aðalmarkörður liðsins og Rúnar virðist kostur númer tvö. Líklegt má telja að Frederik detti út fyrir HM og að keppnin sé mest á milli Ingvars og Ögmundar.

Sex miðverðir voru valdir en líklega fara fjórir á HM. Þar er einnig mjög jöfn samkeppni um fjórða sætið, á eftir þeim Ragnari, Kára og Sverri Inga. Bandaríkjadvölin er í þessu sambandi líklega úrslitastund hjá Hirti, Hólmari og Jóni Guðna. Hörður og Ari verða vinstri bakverðir og Birkir Már hægri bakvörður en enginn eiginlegur annar bakvörður er í hópnum. U21-landsliðsmaðurinn Samúel Kári er hins vegar valinn eftir að hafa leyst það hlutverk vel í vináttulandsleikjum við Indónesíu í janúar og Theódór Elmar og Rúrik geta gert það sömuleiðis, sem og Hjörtur.

Á miðjunni kemur fjarvera Rúnars mest á óvart, því hann var í 23 manna hópi Íslands í níu af 10 leikjum undankeppninnar. Þá virðist honum ganga ágætlega í Sviss. Aron, Birkir, Jóhann og Emil fara hins vegar að óbreyttu á HM, líkt og Gylfi, en mér sýnist staða Arnórs Ingva veikust í miðjumannahópnum, enda hefur hann átt afar erfitt uppdráttar hjá sínum félagsliðum síðustu misseri. Af sóknarmönnum tel ég aðeins Alfreð og Jón Daða eiga víst sæti, en Björn er einnig mjög líklegur. Kolbeinn gæti tekið fjórða framherjaplássið. Þá mætti segja að Viðar, Kjartan og U21-landsliðsfyrirliðinn Albert, sem líkt og Samúel Kári verður aðeins með í leiknum við Mexíkó vegna leiks með U21-landsliðinu, sæti allir færis ef Kolbeinn á of langt í land.

Gana síðasti andstæðingur fyrir HM

Ísland mætir Gana á Laugardalsvelli 7. júní, í síðasta leik sínum fyrir HM, en það var tilkynnt í gær. Liðið mætir áður Noregi 2. júní í lokaundirbúningnum fyrir stóru stundina.