Menntamálastofnun, MMS, tók að fullu til starfa haustið 2015 og er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem skal stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar.

Menntamálastofnun, MMS, tók að fullu til starfa haustið 2015 og er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem skal stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar. Verkefni sem áður voru á hendi Námsgagnastofnunar, Námsmatsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis eru nú hjá MMS. Af stórum verkefnum MMS ber stofnuninni til dæmis að sjá grunnskólanemendum fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá, einnig á MMS að geta haft hlutverk varðandi námsgögn á öðrum skólastigum. MMS á þá að hafa eftirlit og meta með mælingum árangur af skólastarfi, svo sem með umsjón samræmdra prófa í grunnskólum, og MMS undirbýr skimunarpróf sem nær til bæði leik- og grunnskóla.

Stofnunin sér um framkvæmd aðgangsprófa í Háskóla Íslands og hefur einnig að segja um eftirlit og mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum. Stofnunin sinnir eftirliti og mælingum á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum, annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og veitir á grundvelli þeirra stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar.

MMS kemur að framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna, til dæmis viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi og framhaldsfræðsluaðila, innritun nemenda í framhaldsskóla og undirbúningi að staðfestingu námsbrauta- og áfangalýsinga framhaldsskóla, m.a. í tengslum við styttingu náms til framhaldsskóla.