Páll Pálsson ÍS Landfestar systurskipanna verða leystar á þriðjudag.
Páll Pálsson ÍS Landfestar systurskipanna verða leystar á þriðjudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þolinmæði,“ er svar Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Hnífsdal, þegar hann er spurður hvað menn hafi lært af samskiptunum við Kínverja, meðan á smíði togaranna tveggja hefur staðið.

„Þolinmæði,“ er svar Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Hnífsdal, þegar hann er spurður hvað menn hafi lært af samskiptunum við Kínverja, meðan á smíði togaranna tveggja hefur staðið. „Við höfum líka lært að menn eru sterkari þegar þeir vinna saman, en ekki hver í sínu lagi. Einn hefði maður tæpast farið í svona verkefni og niðurstaðan er að við erum að fá öflug skip á mjög góðu verði.“

Einar Valur segir að tafirnar á afhendingu nýs Páls Pálssonar hafi verið bagalegar fyrir reksturinn. „Þetta tafðist alveg um heilt ár og á tímabili var lítið að gerast í smíði og frágangi á skipunum. Við seldum gamla Pál Pálsson í fyrrasumar og trúðum því að nýja skipið væri að koma. 70 daga verkfall á síðasta fiskveiðiári hafði sín áhrif og kvótinn safnaðist upp því skipin voru ekkert að veiða í á þriðja mánuð.

Þegar við héldum að skipið færi að leggja af stað gerðist eitthvað, sem olli því að afhendingu skipanna seinkaði úr hófi. Í lokin var þetta sérstaklega erfitt, en mér skilst á þeim sem hafa staðið í svipuðum sporum að það sé svipuð saga alls staðar þegar kemur að verklokum og uppgjöri. Sama hvort það er í Tyrklandi, Noregi, Póllandi eða Kína, það er alltaf eitthvert vesen í lokin. Það sem þó skiptir mestu máli er að við erum að fá traust og gott skip, sem breytir miklu fyrir okur.“

Einar Valur segir að tilhlökkun fylgi því að taka á móti nýju skipi.

Hann hafi ítrekað verið spurður síðustu mánuði hvenær nýi Páll komi. „Ég var búinn að finna svarið við þessari spurningu og sagði einfaldlega að skipið yrði nýjasta skipið í flotanum þegar það kæmi.“

HG er með höfuðstöðvar í Hnífsdal og þangað kom síðast nýtt skip 1973. Fyrirtækið er einnig með rekstur á Ísafirði og Súðavík. Auk nýja Páls mun HG gera út Stefni, smíðaðan 1976, og Júlíus Geirmundsson, sem var smíðaður 1989. Gamli Páll var smíðaður í Japan 1972. Nýtt skip hefur ekki komið til Ísafjarðar síðan 1994 þegar Guðbjörgin kom ný frá Flekkefjord í Noregi, en Hrönn hf. gerði skipið út.

Einar Valur segir að starfsmenn fyrirtækjanna og Skipasýnar hafi staðið sig einstaklega vel meðan á smíðatímanum stóð, en nokkrir þeirra hafa dvalið langdvölum í Kína síðustu misseri.