Vísindasmiðja Fróðleikur og fjör í Húsdýragarðinum.
Vísindasmiðja Fróðleikur og fjör í Húsdýragarðinum. — Morgunblaðið/Ófeigur
Verkfræðingafélags Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman um að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun.

Verkfræðingafélags Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman um að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélagsins, undirrituðu samning í Vísindasmiðjunni á dögunum.

Verkfræðingafélagið veitir 500 þús. kr. styrk til þess að vinna fræðsluefni fyrir vef Vísindasmiðjunnar. Byrjað verður á efni tengdu forritun en Vísindasmiðjan hefur lagt sig eftir að efla færni bæði kennara og nemenda í að nýta möguleika forritunar og tengja hana ýmsum námsgreinum.

Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki þátt í Fjölskyldudegi verkfræðinnar sem haldinn er í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í ágúst ár. Gert er ráð fyrir að samstarfssamningur þessi verði endurskoðaður árlega.

Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 og aðsetur hennar er í Háskólabíói. Markmiðið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda. Leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur HÍ.

Smiðjan er fyrst og fremst ætluð nemendum 5.-10. bekkjar og er opin grunnskólahópum fjóra daga vikunnar, þeim að kostnaðarlausu. Áætlað er að ríflega 20 þúsund grunnskólabörn hafi heimsótt Vísindasmiðjuna á sl. sex árum.