Margrét Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 13. mars 2018.
Foreldrar hennar voru Magnús Einarsson, f. 25. desember 1912, d. 4. september 1985, og eiginkona hans Dagbjört Eiríksdóttir, f. 20. júlí 1914, d. 8. maí 1977. Systkini Margrétar eru Jón, f. 1934, Erla, f. 1935, Þráinn, f. 1938, Magnea, f. 1940, Páll, f. 1946, og Eðvald, f. 1954. Magnea er sú eina af systkinahópnum sem er enn á lífi.
Þann 22. nóvember 1969 giftist Margrét Kristjáni Einarssyni, f. 4. janúar 1935, d. 26. janúar 2003. Foreldrar hans voru Einar Tómasson og Ragnhildur Jónsdóttir.
Börn Margrétar og Kristjáns eru: 1) Gunnar Örn matreiðslumeistari, f. 4. júlí 1958. Synir hans eru Kristján Már, f. 1986, Gísli Þór, f. 1992, og Ólafur f. 1999. 2) Ragnhildur Margrét, f. 10. ágúst 1967, gift Hannesi Richardssyni viðskiptafræðingi. Börn þeirra eru Gunnur Ýr, f. og d. 13. mars 1991, Fannar Freyr, f. 1993, Richard Rafn, f. 2000, og Margrét Mist, f. 2002.
Margrét ólst upp í Reykjavík. Hún vann við ýmis störf, lengst af í Smjörlíkisgerðinni, Hæstarétti og versluninni Víði í Austurstræti. Árið 1998 keypti Margrét ásamt eiginmanni sínum söluturninn Hallann, Laufásvegi 2, og rak hún og starfaði við söluturninn til ársins 2006, eða til sjötugsaldurs, fyrstu árin með eiginmanni sínum Kristjáni en síðustu þrjú árin ein.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 15.
„Þú skrifar minningargrein um mig þegar ég dey“ sagði Margrét við mig fyrir löngu. Þar sem hún var hvorki frek né stjórnsöm þá játti ég. Hún ítrekaði þetta í nokkur skipti en þegar hún var sannfærð um að á milli okkar væri heiðurssamkomulag um þetta minntist hún aldrei á það framar. Þannig var Margrét, hreinskiptin, án frekju eða dónaskapar, treysti þeim sem traustsins voru verðir og undraðist mjög ef fólk brást.
Margrét var móðir barnsföður míns og tók ekki annað í mál en að kynnast sonarsyni sínum. Hún sótti það líka fast að kynnast mér. Smátt og smátt byggðum við upp vináttu og ég áttaði mig fljótlega á því að Margrét leyndi á sér. Þótt hún hefði litla skólagöngu og enn minna af góðri reynslu af skólum hafði hún til að bera skynsemi og eðlisgreind. Af frásögnum hennar af æsku sinni var augljóst að hún ólst upp við fátækt og skort og aldrei varð hún Margrét rík af öðru en umhyggju fyrir sínum. Það ríkidæmi nægði henni.
Í þeim harða heimi sem hún ólst upp í um og í kringum stríð hefði hún eflaust verið talin „aumingjagóð“ en nú á tímum heitir slíkt hjartahlýja. Hún vildi öllum vel, nema náttúrulega þeim sem brugðust hennar fólki því aldrei mátti orði halla á afkomendur Margrétar í hennar eyru, þá gat hún breyst úr hjartahlýrri konu í tannhvassa tengdamóður.
Hún ræktaði sambandið við sonarson sinn vel og bauð mér ætíð með um stórhátíðir. Það var aldrei til umræðu annað en að ég mætti þó svo að ég ætti ekki í sambandi við son hennar. Ég gladdist mjög yfir að sonur minni fengi að kynnast þessari ömmu sinni, hreinskiptri, látlausri, skemmtilegri og velviljaðri. Ég þakka góð kynni sem hafa auðgað líf mitt.
Ásdís Bergþórsdóttir.
Magga ólst upp í Bjarnaborginni, sú þriðja í hópi sjö systkina. Tæplega 22 ára að aldri eignaðist hún Gunnar Örn og fyrstu árin bjuggu þau mæðginin tvö saman undir kvisti í Bjarnaborginni. Kristjáni Einarssyni, eða Kidda, kynntist hún svo nokkrum árum síðar og hófu þau búskap fljótlega upp úr því. Ragnhildur Margrét bættist svo í hópinn árið 1967 og 1970 fluttu þau í Þórufellið.
Þegar árin með Möggu og Kidda eru rifjuð upp er ekki hægt annað en að minnast heimsóknanna í Þórufellið. Magga og Kiddi voru með eindæmum gestrisin, sem sýndi sig í því að oft var þéttsetinn bekkurinn á heimilinu. Systkini Möggu voru þar tíðir gestir og þá sérstaklega yngsti bróðirinn hann Eðvald, eða Elli, sem átti alltaf vísan næturstað í Þórufellinu þó að plássið væri ekki mikið. Kiddi var kokkur mikill og hafði yndi af að laða fram stórsteikur. Það var líka svo einstakt með pottana í Þórufellinu að í þeim var alltaf nægur matur fyrir alla þá sem áttu leið hjá.
Leiðir okkar Gunna skildu fljótlega en tengdafjölskylduna var ég svo heppin að eiga áfram. Á þeim árum sem við Kristján Már bjuggum hjá mömmu og pabba í Skaftahlíðinni kom Kiddi ófáar ferðirnar færandi hendi til mömmu og pabba með fullar hendur matar til að létta undir með þeim. Á milli foreldra minna og Möggu og Kidda myndaðist góður vinskapur og höfðu mamma og Kiddi einstaklega gaman af að ræða landsmálin og pólitík.
Alltaf voru Magga og Kiddi til í að passa og ekki leiddist Kristjáni að fara í pössun í Þórufellið, þar vafði hann ömmu og afa um fingur sér og fékk þar ýmsu framgengt sem hann hefði aldrei fengið heima hjá sér.
Árið 1998 ákváðu Magga og Kiddi að fara út í eigin atvinnurekstur og keyptu söluturninn Hallann við Bókhlöðustig. Þar stóðu þau samhliða vaktina næstu árin. Kiddi missti heilsuna á þessum árum, en vann þó í Hallanum allt til dauðadags.
Það kom engum á óvart sem þekktu til Kidda og Möggu að á örskömmum tíma í Hallanum höfðu þau eignast aragrúa nýrra vina, en það voru krakkarnir í MR sem flykktust í Hallann í frímínútum og keyptu sér „peppó og kók“.
Magga lét fátt stoppa sig í því sem hún ætlaði sér. Gott dæmi um það er að eftir að Kiddi féll frá hélt hún ótrauð áfram rekstrinum á Hallanum í nokkur ár. Hún var ekkert að víla það sérstaklega fyrir sér, heldur keypti sér lítinn bíl og brunaði síðan allra sinna ferða. Það eru ófáar skemmtisögurnar af þeim túrum, t.d. þegar sú gamla brunaði galvösk á móti umferð.
Fyrir utan þá góðmennsku og væntumþykju sem Magga sýndi mér og mínum hafði hún þann skemmtilega eiginleika að hún tók sjálfa sig aldrei neitt sérlega hátíðlega og enginn hló hærra að eigin skakkaföllum en hún. Þessu einstaka viðhorfi hélt hún alla tíð.
Frá því í desember 2016 dvaldi Magga á hjartadeild Landspítalans, Landakotsspítala, Vífilsstöðum og á hjúkrunarheimilinu Mörk, þar sem hún andaðist 13. mars síðastliðinn. Starfsfólki þessara stofnana er þakkaður hlýhugur og góðsemi í garð Möggu.
Að lokum vil ég segja: Magga tengdó, takk fyrir allt og allt.
mbl.is/minningar
Ragna S. Óskarsdóttir.
Dóra Jakobsdóttir Guðjohnsen.
Elsku Magga mín, nú á ég í erfiðleikum með að byrja. Leiðir okkar lágu saman þegar ég flutti upp í Breiðholt í Þórufell 12. Ég var ákveðin í að eignast ekki vinkonu í stigaganginum en það þurfti ekki nema þrjú skipti hjá þér, þú hringdir bjöllunni og ég opnaði og þú sagðir: „Hæ á ekki að hleypa manni inn?“ Margs er að minnast, eins og þegar þú varst að fara að skemmta þér, þá komstu upp til mín í nýjum kjól og sagðir: „Hvernig finnst þér?“ Þú varst alltaf svo fín. Ég á eftir að sakna tryggðar þinnar og væntumþykju sem aldrei bar skugga á. Þó að oft liði langur tími milli símtala eða samverustunda var alltaf eins og við hefðum hist á hverjum degi og þráðurinn bara tekinn upp þar sem frá var horfið. Ég þakka fyrir allar góðu minningarnar sem munu ylja mér um ókomna tíð. Megi allir góðir vættir geyma þig, Magga mín.
Elsku Ragnhildur og fjölskylda, Gunnar og synir og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.
Þín vinkona
Ragna.
Þú varst okkur svo undur góð.
Ég ákvað að yrkja þetta ljóð.
Ég vil þakka fyrir samveruna þína,
endilega komdu í drauma mína.
Nú veit ég alltaf hvar þú ert,
ég einungis lít upp til himna.
Þá sé ég björtustu stjörnuna,
það ert þú að horfa niður.
Nú minnumst við þín með sögum,
hlæjum og grátum með látum.
Þú varst vinkona allra, smárra, stórra,
ríkra og fátækra.
En núna muntu eignast enn fleiri vini
og við munum passa að segja öllum hvað þú varst falleg í alla staði.
Hafðu nú gaman að dansa með afa í skýjunum.
Guðrún Ástrós
Bergsveinsdóttir.