„Við erum byrjaðir að markaðssetja sjóðinn til íslenskra fjárfesta og þar er verulegur áhugi, enda sjávarútvegur í Norður-Ameríku risastór og býður upp á áhugaverðan fjárfestingarkost í erlendri mynt,“ segir Valdimar Ármann um fyrsta sjóðinn sem GAMMA setur á laggirnar í Bandaríkjunum. Sjóðurinn fjárfestir í lánum til sjávarútvegsfyrirtækja í Bandaríkjunum og Kanada.
„Síðar verður sjóðurinn markaðssettur til bandarískra fjárfesta og þannig munum við sameina íslenska og bandaríska fjárfesta í sjóð utan um þessa afurð, sem ég tel marka ákveðin tímamót.“
GAMMA er í samstarfi við fjárfestingarbankann Antarctica Advisors í verkefninu, en á bak við hann er teymi sem starfaði hjá Glitni í New York fyrir bankahrunið, meðal annars við þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki.