Sonur Víkverja varð nýlega tveggja ára gamall.
Sonur Víkverja varð nýlega tveggja ára gamall. Víkverji hefur löngum miklað þennan aldur fyrir sér, þar sem á ensku er til þekktur frasi: „terrible twos“, sem lýsir því að tveggja ára börn eigi það til að taka út ákveðinn þroska sem geri foreldrana gráhærða. Því miður hefur Víkverji komist að því að hans eigið hár er þeirri náttúru gætt að það vill frekar kveðja þessa jarðvist en að verða grátt.
Víkverji hugsaði aldrei mjög mikið um hárið á sér. Honum leiddist að fara í klippingu, hann gerði aldrei neitt við það sem gat talist „móðins“. Víkverji hefur ekki einu sinni fengið sér strípur eða permanent! En nú, þegar hár hans hefur ákveðið að láta á sjá, eyðir Víkverji miklum tíma af hverjum degi til þess að láta það líta sem best út. „Er það of þunnt hérna megin í dag? Þarf ég að greiða það svona núna?“ Allt þetta og meira til flýgur um bráðum hárasnautt höfuð Víkverja á hverjum degi. „Enginn veit hvað átt hefur...“
En aftur að syninum, þessum tveggja ára. Helsta breytingin sem foreldrarnir hafa tekið eftir, er að hann er ekki lengur jafnvarkár og áður. Þetta telst varla vera góð breyting, þar sem nú mega Víkverji og frú varla líta af drengnum áður en hann er bara kominn upp á borð. Ítrekaðar umvendingar um að þetta sé nú stórhættulegt og megi hreinlega ekki lætur erfðaprinsinn hreinlega sem vind um eyru þjóta. Það eina sem virkar er að fjarlægja stólana frá borðinu, þannig að þeir dugi ekki lengur sem stigi upp á borð. En hvar eiga foreldrarnir þá að sitja?