„Það er spennandi að fá að halda áfram með tillöguna – það opnast heill heimur af möguleikum,“ segir Hekla Dögg Jónsdóttir. Hún bætir við að fram undan séu strembnar vikur við útfærslu tillögunnar en hún starfar sem prófessor við LHÍ og þar er einnig nóg að gera.
„En ég mun vinna áfram með hugmyndir og hluti sem ég hef áður unnið með og sýnt,“ bætir hún við. „Svo er ég svo heppin að hafa verið í rannsóknarleyfi frá LHÍ og er því alveg tilbúin fyrir þessa vinnu. Ég hef undanfarið hlaðið upp hugmyndum og unnið út frá þeim.“
Hekla Dögg vinnur með sýningarstjóranum Alessandro Castiglioni og hafa þau unnið saman nokkrum sinnum, meðal annars með verk hennar á sýningum í söfnum í Genóa og á Gíbraltar. „Hann býr í Mílanó og er ungur listfræðingur, skarpur eldhugi sem kennir við háskóla þar,“ segir hún.
En um hvað snýst hugmyndin?
„Ég var nýverið með sýningu í Kling & Bang þar sem ég vann með sköpunarkraftinn og augnablikið. Ég held áfram með þá þætti, get ekki rætt enn um útfærsluna sem slíka, en held áfram að tengja hugmyndir eða verk annarra listamanna inn í mín verk og mínar hugmyndir. Og þegar komið er í alþjóðlegt samhengi eins og í Feneyjum, með alla gestina og þar á meðal listamenn, þá má mæla sér mót við marga. Þetta býr til möguleika fyrir nýtt samhengi og samvinnu, og nýja skapandi orku, sem ég fæ til liðs við mig í verkinu.
Rýmið og staðsetningin kalla svo alltaf á ákveðna útfærslu og merkingu og það munum við skoða betur á næstu vikum.“