Hjaltlína Sigríður Agnarsdóttir fæddist 17. júlí 1931 á Ísafirði. Hún lést á heimili sínu 14. mars 2018.

Foreldrar hennar voru Sturla Agnar Guðmundsson, f. 14. okt. 1897, d. 2. okt. 1981, og Kristjana Margrét Sigmundsdóttir, f. 2. mars 1897, d. 6. jan. 1983. Systkini Hjaltlínu eru Hulda, f. 2. apríl 1921, d. 30. des. 2003. Guðrún Sigþrúður, f. 19. júní 1922, d. 24. apríl 2006. Kristján Jónatan, f. 11. maí 1924, d. 21. nóv. 1978. Höskuldur, f. 27. sep. 1925, d. 18. jan. 2000. Kristín Svava, f. 27. júlí 1927, lést ung. Agnes Sturlína, f. 18. júní 1930. Guðmundur, f. 14. mars 1933, d. 2. júlí 2002. Guðbjörg Erna, f. 11. nóv. 1934. Margrét Sigmunda, f. 28. feb. 1937. Agnar, f. 22. júlí 1938, d. 19. des. 1977. Sigmundur, f. 30. okt. 1941. Eyjólfur, f. 22. júlí 1944, d. 23. feb. 2007.

Hjaltlína og eiginmaður hennar, Jóhannes Bjarni Bjarnason, skipstjóri frá Ísafirði, f. 18. okt. 1923, d. 13. mars 2001, hófu búskap sinn á Ísafirði en fluttu til Keflavíkur 1966. Þau eignuðust átta börn sem eru. Hallgrímur Jóhannesson, f. 22. jún. 1948, d. 4. sept. 2017, eftirlifandi maki Sigurbjörg Gísladóttir. Herdís Jóhannesdóttir Thompson, f. 6. mars 1950, maki Allyn Thompson. Sigríður Jóhannesdóttir, f. 26. feb. 1952, maki Guðmundur K.M. Sigurðsson, látinn. Kristjana Margrét Jóhannesdóttir, f. 31. mars 1954, maki Páll Sólberg Eggertsson. Bjarni Magnús Jóhannesson, f. 27. apríl 1958, d. 12. ágúst 2017, eftirlifandi maki Þuríður Sveinsdóttir. Guðrún Brynja Jóhannesdóttir, f. 20. sep. 1959, maki Sigurjón Stefánsson. Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 6. júlí 1960. Guðmundur H.F. Jóhannesson, f. 18. sept. 1965, maki Eyrún Anna Gestsdóttir.

Barnabörn þeirra eru 29. Barnabarnabörn eru 64. Barnabarnabarnabörn eru tvö.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 13.

Í dag kveð ég elskulega tengdamóður mína, Hjaltlínu Sigríði Agnarsdóttur. Það er margs að minnast og margt sem kemur upp í hugann á svona tímamótum. Ég var tvítugur þegar við kynntumst, þá vorum við Kiddý, dóttir Höddu og Jóa, að draga okkur saman árið 1970. Ég man hvað mér var strax vel tekið þegar ég hitti þau hjónin fyrst. Tiltölulega stutt frá því að þau fluttu frá Ísafirði til Keflavíkur, eða rétt fjórum árum áður með stóran barnahóp. Alltaf var vel tekið á móti manni þegar maður kom, í heimsókn með kaffi og meðlæti. Alltaf var Hadda létt og kát og stutt í hláturinn, ég man sérstaklega eftir því þegar Höskuldur bróðir hennar kom í heimsókn hvað þau náðu vel saman í því að spauga og hlæja og skemmta sér. Jói tengdapabbi var mikið á sjónum sem skipstjóri á stærri bátum og hún alltaf heima með barnahópinn sinn. Síðan fluttu þau á Faxabraut 30 í Keflavík, þar bjuggu þau nokkuð lengi, smám saman fóru börnin að flytja að heiman og stofna sínar eigin fjölskyldur. Sum bjuggu í Keflavík, Njarðvík, Garðinum, Hornafirði og Ameríku. Alltaf var hún boðin og búin að passa þegar við hjónin brugðum okkur af bæ í ferðalag innanlands eða fórum til útlanda, þá man ég eftir því að þau fluttu heim til okkar til þess að passa fyrir okkur börnin. Þegar þau voru orðin bara tvö ein í kotinu fluttu þau upp á Heiðarbraut í minni og þægilegri íbúð. Jói var hættur á stærri bátum og keypti sér trillu utan úr Garði, sem hann nefndi Sleipni GK og fór að róa sunnan úr Höfnum og lagði upp aflann hjá pabba mínum Eggert Ólafssyni, sem var með fiskverkun í Höfnum. Ég man að einu sinni fórum við á sjóinn með Jóa, Hadda, Kiddý og ég í fallegu veðri, það var mikið gaman og mikið hlegið. Þegar þarna var komið þá var Jói orðinn trillusjómaður og kom heim á hverju kvöldi og ég man hvað það breytti miklu fyrir Höddu. Það var Höddu mikill missir þegar Jói féll frá 13. mars 2001. Hadda tók öllu með miklu æðruleysi, lífið hélt áfram. Það var alltaf gaman að heimsækja hana og líka þegar hún kom í heimsókn til okkar. Hún hafði mjög gaman af því að fara í bíltúr, kíkja í búðir og fá sér ís. Hún var alla tíð sjálfri sér nóg. Hafði mjög gaman af ef ættingjarnir komu í heimsókn, því fleiri því meira gaman. Svo varð hún fyrir miklu áfalli þegar Bjarni sonur hennar féll frá 12. ágúst 2017 og svo Haddi sonur hennar 22 dögum seinna, 4. september 2017. Þetta tók mikið á hana, hún hafði á orði hve lífið gæti verið ósanngjarnt, að hún hefði átt að fá að fara á undan.

En nú var hennar tími kominn, 14. mars 2018 kveður hún blessunin alveg eins og hún vildi fá að fara án þess að vera mikill sjúklingur inni á sjúkrahúsi í langan tíma, en henni varð að ósk sinni. Hún var í heimsókn hjá okkur Kiddý deginum áður, kom til að færa mér blóm í tilefni þess að ég átti afmæli, það lá svo vel á henni eins og ávallt, hló og skemmti sér og tók nokkur dansspor. En svo 20 tímum seinna var hún dáin heima hjá sér uppi í rúmi.

Ég kveð með söknuði kæra tengdamömmu mína og það er gott til þess að vita að það var vel tekið á móti henni af þeim Jóa, Hadda og Bjarna.

Blessuð sé minning ykkar. Hvíl í guðs friði.

Páll Eggertsson.

Enn og aftur ber sorgin að dyrum, tengdamóðir mín hún Hjaltlína sem alltaf var kölluð Hadda, lést á heimili sínu 14. mars sl. Það voru þung spor þegar ég 4. september sl. tilkynnti þér lát Hadda, elsta sonar þíns, vikuna áður höfðum við kvatt Bjarna Magnús sem var fimmti í röðinni af börnunum þínum. Þú tókst þessu með æðruleysi, hafðir meiri áhyggjur hvernig okkur Þuríði hans Bjarna liði, hvernig við tækjumst á við sorgina. Þú barst ekki tilfinningar þínar á torg, áttir þínar sorgarstundir í einrúmi. Ég var aðeins 15 ára þegar ég kom fyrst á heimili Höddu og Jóa í Brunngötu 12 á Ísafirði. Ég dáðist að þessari glæsilegu 32 ára konu sem tók mér strax opnum örmum og hef ég ávallt verið eins og ein af stóra barnahópnum þeirra. Hadda var mikil húsmóðir og aldrei man ég eftir að hafa komið inn á heimilið öðruvísi en allt væri skúrað út úr dyrum og alltaf heimabakað með kaffinu. Já hún vildi hafa fínt í kringum sig hún tengdamamma.

Margar minningar koma upp í hugann og minnisstæð er mér ferðin sem við fórum saman til Ameríku í september 2001, í brúðkaup hjá barnbarni hennar Sonju dóttur Dísu.

Elsku Hadda, ég gæti rifjað upp margar skemmtilegar stundir sem við Haddi áttum með þér síðustu árinn. Upp í hugann kemur þegar við Haddi buðum ykkur systrunum í mat og í eftirrétt voru Napóleonskökur eins og þið voruð vanar úr Gamla bakaríinu á Ísafirði. Haddi vildi koma ykkur á óvart og tókst það svo sannarlega.

Elsku Hadda, nú er komið að leiðarlokum og vil ég þakka þér fyrir samfylgdina og allt sem þú gerðir fyrir okkur. Ég veit að þú ert komin á þann stað sem þú þráðir heitast, að komast til Jóa þíns, ég veit líka að bræðurnir Haddi og Bjarni hafa tekið á móti þér.

Ég bið góðan guð að styrkja eftirlifandi systkini Höddu og alla stórfjölskylduna.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

Þín tengdadóttir

Sigurbjörg (Sirrý).