Senn eru þrjár vikur frá sögulegum kosningum á Ítalíu. Kratar sem héldu um stjórnartaumana biðu þá afhroð. Renzi, leiðtogi þeirra, mun segja af sér formennsku í flokknum á næstunni. Hægra bandalagið svonefnda, sem (norður) Bandalagið annars vegar og Afl Ítalíu (Berlusconi) eru öflugust í, fengu 37% atkvæðanna. En hægra bandalagið hefði þurft að merja 40% til að fá hreinan meirihluta á þingi, samkvæmt gildandi reglum.
Berlusconi segist munu standa við þær yfirlýsingar sínar að styðja að forsætisráðherraefnið komi úr þeim ranni hægra bandalagsins sem fékk mest fylgi. Kannanir bentu til þess að flokkur Berlusconis yrði stærstur. En svo fór að (N)Bandalagið fékk meira fylgi. Berlusconi styður því að Salvini leiðtogi þess leiti eftir samstarfi við Fimm stjörnu hreyfinguna sem fékk 32% og langmest fylgi einstakra flokka á Ítalíu.
Allir þessir flokkar sem voru í stjórnarandstöðu hafa mikla fyrirvara á samstarfinu við ESB og efasemdir um gagnsemi hinnar sameiginlegu myntar þess. En áherslurnar eru þó um margt ólíkar. Ekkert er hægt að fullyrða að stjórnarsamstarf á þessum væng muni leiða til að boðað verði til þjóðaratkvæðis um veru Ítalíu í ESB (eins og Fimm stjörnu flokkurinn boðaði) eða að evrunni verði varpað fyrir róða (eins og N-bandalagið vill) eða að líran verði tekin upp sem hliðarmynt við evru, eins og Berlusconi talaði fyrir.
Áherslur gamla leiðtogans hafa breyst töluvert á seinustu árum með nýrri vinkonu sem gerði hann að vegan-manni. Hann hefur mildast í fjandskap við ESB. Ekki er því útilokað að minna muni gerast í ESB-málum þótt hægristjórn verði mynduð á næstunni. En sennilega má slá föstu að andstaða verði frá Ítalíu gegn baráttu Macrons forseta um enn meiri samþjöppun valds í Brussel.