Eftir Sigurð Þórðarson: "Utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins skiptir þjóðum heims í vina- og óvinaþjóðir."
Utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins skiptir þjóðum heims í vina- og óvinaþjóðir. Þess vegna þarf aldrei að sanna ásökun á hendur óvinaþjóð ef hún er borin fram af leyniþjónustu vinaþjóðar. Þetta er ekki ný regla og því síður óbrigðul sbr. Írak og Libýu. Því er ekki úr vegi að spyrja: Hvað þarf ein þjóð að gera til þess að öðlast þá upphefð að kallast vinaþjóð Íslands í munni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra? Bretar gerðu leynisamning árið 1901 við Dani um að fá að veiða allt að þremur mílum í fjörðum og flóum Íslands.Árið 1938 knúðu bresk stjórnvöld íslensku ríkisstjórnina til að reka Einar M. Einarsson skipherra á Ægi og halda því leyndu fyrir þingi og þjóð. Málið var samt upplýst árið 1958 af Bjarna Benediktssyni, sem þá var ritstjóri Morgunblaðsins. Árið 1940 gerðu þeir innrás og hernámu Ísland. Árið 1952 settu þeir löndunar- og viðskiptabann á Ísland, sem hefði haft skelfilegar afleiðingar fyrir þjóðina nema vegna þess að Rússar björguðu Íslendingum og skáru þá úr snöru Breta. Eftir þetta sendu Bretar þrívegis herskip og dráttarbáta í íslenska lögsögu til að ráðast á íslensk varðskip. Rússar ásamt Afríku og S-Ameríkuríkjum studdu Íslendinga dyggilega og munaði þar mest um stuðning Sovétríkjanna þar sem Rússar réðu mestu. Í bankahruninu lentu Íslendingar í miklum vanda. Rússar buðust til að veita Íslendingum stuðning en Bretar settu hryðjuverkalög á Íslendinga. Kannski má að einhverju leyti hafa ofanrituð dæmi til hliðsjónar til að skilja skilgreiningu utanríkisráðherrans?
Höfundur er fv. stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni.
Höf.: Sigurð Þórðarson