Hlutfall sölu í lausu eykst nú ár frá ári hjá olíufélaginu N1, en hluti af umhverfisstefnu félagsins er að auka slíka lausasölu og minnka notkun plasts.
Í nýrri ársskýrslu félagsins er þess sérstaklega getið að annað árið í röð hafi á síðasta ári orðið aukning í lausasölu efna eins og rúðuvökva, olíuhreinsis, tjöruhreinsis og dekkjahreinsis. Á árinu var 61% af þessari vöru selt í lausu beint til viðskiptavina, en 39% af framleiðslunni var pakkað í 1 l, 2,5 l, 5 l, 20 l og 200 l neytendapakkningar.
Spurð að því hvort að stefnt sé að því að færa sig alfarið yfir í lausasölu, segir Guðný Rósa Þórðardóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1, í samtali við ViðskiptaMoggann að slíkt væri afar æskilegt. „Það er æskilegt að sem mest sé keypt í lausasölu, bæði fyrir umhverfið og buddu neytenda, enda er rúðuvökvi í lausu ódýrari en sá sem er í brúsanum og að sjálfsögðu umhverfisvænni kostur.“
Mætti kynna betur
Guðný segir að félagið mætti kynna lausasöluna betur sem þann umhverfisvæna kost sem hún er.„Við höfum verið að bjóða upp á rúðuvökva í lausu á nýjum sjálfsafgreiðslustöðvum sem settar eru upp og að auki er í boði að fá rúðuvökva á mörgum þjónustustöðvum, þ.a. við stefnum klárlega á að rúðuvökvi í lausu sé framtíðin.“
Guðný segir að það sama gildi um fleiri vökva. „Á hjólbarða- og smurverkstæðum er smurolíu dælt af tunnum eða forðageymum til að lágmarka notkun umbúða og er klárlega stefnan að selja sem mest í lausu þar einnig.“