Sveiflur „Það er mikilvægt bæði fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu að efnahagslegur stöðugleiki sé aukinn og hann sé jafnframt víðtækur. Sveiflur í starfsumhverfi fyrirtækja m.t.t. gengis krónunnar og launabreytinga eru langt umfram það sem gerist í þeim löndum sem við erum að keppa við. Ekkert iðnríki hefur gengið í gegnum viðlíka sveiflu í raungengi krónunnar og hið íslenska á síðastliðnum 15 árum.“
Sveiflur „Það er mikilvægt bæði fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu að efnahagslegur stöðugleiki sé aukinn og hann sé jafnframt víðtækur. Sveiflur í starfsumhverfi fyrirtækja m.t.t. gengis krónunnar og launabreytinga eru langt umfram það sem gerist í þeim löndum sem við erum að keppa við. Ekkert iðnríki hefur gengið í gegnum viðlíka sveiflu í raungengi krónunnar og hið íslenska á síðastliðnum 15 árum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtök iðnaðarins gáfu út viðamikla skýrslu samhliða Iðnþingi og ber skýrslan sama heiti og yfirskrift Iðnþings 2018; Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina.

Samtök iðnaðarins gáfu út viðamikla skýrslu samhliða Iðnþingi og ber skýrslan sama heiti og yfirskrift Iðnþings 2018; Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina. Skýrslan sem er hátt í 100 síður er unnin af starfsmönnum Samtaka iðnaðarins en þar er horft til samkeppnishæfni Íslands út frá menntun, nýsköpun, innviðum og starfsumhverfi.

Jón Agnar Ólason

jonagnar@mbl.is

Í skýrslunni eru einnig samantektir um stöðu hagkerfisins, umhverfismála og þær tæknibreytingar sem eru framundan. Þá eru settar fram helstu áskoranir sem þarf að mæta til að efla samkeppnishæfni landsins að mati Samtaka iðnaðarins.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, er meðal skýrsluhöfunda. Hann segir markmiðið með útgáfu skýrslunnar vera að varpa ljósi á stöðu Íslands í samanburði við önnur ríki og hvaða áskoranir það eru sem helst þarf að mæta til að bæta samkeppnishæfnina hér á landi. „Við viljum með þessari samantekt leggja okkar af mörkum til að skapa upplýsta umræðu um samkeppnishæfni landsins og um þær leiðir sem eru til úrbóta til að bæta stöðuna.“

Sveiflurnar meiri hérlendis

Í skýrslunni eru meðal annars settar fram tíu áskoranir sem samtökin telja að þurfi að mæta til að efla samkeppnishæfnina. Ingólfur segir að þar sé efst á blaði stöðugleikinn. „Það er mikilvægt bæði fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu að efnahagslegur stöðugleiki sé aukinn og hann sé jafnframt víðtækur. Sveiflur í starfsumhverfi fyrirtækja m.t.t. gengis krónunnar og launabreytinga eru langt umfram það sem gerist í þeim löndum sem við erum að keppa við. Ekkert iðnríki hefur gengið í gegnum viðlíka sveiflu í raungengi krónunnar og hið íslenska á síðastliðnum 15 árum en raungengi krónunnar er mælikvarði á þróun samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Þessar miklu sveiflur eru öllum erfiðar og koma niður á framleiðni og verðmætasköpun.“

Hann segir að efnahagssveiflurnar hafi verið miklar hér á landi í samanburði við önnur ríki. „Íslenskt efnahagslíf er mjög sveiflukennt og mun sveiflukenndara en þau hagkerfi sem við viljum helst bera okkur saman við. Ástæða þess er smæðin og einhæfni í gjaldeyrissköpun ásamt lélegri hagstjórn samhliða oft á tíðum mjög óöguðum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Efnahagssveiflurnar hafa síðan endurspeglast í sveiflukenndri krónu.“

Gengi krónunnar hækkað

Ingólfur segir að gengi krónunnar hafi lækkað mikið eftir efnahagsáfallið 2008 sem gerði landið samkeppnishæfara m.t.t. innlends kostnaðar. „Þannig varð landið m.a. ódýrara heim að sækja. En hins vegar hefur gengi krónunnar hækkað umtalsvert í núverandi efnahagsuppsveiflu. Launin hafa hækkað talsvert umfram framleiðnivöxt og hefur sá munur verið meiri hér á landi en hjá nálægum ríkjum. Þó hækkun gengisins og launahækkanirnar séu að hluta leið til að skila efnahagslegri velgengni til heimilanna í landinu þá hefur þessi þróun skert samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja hér á landi sem helst keppa við erlend. Það hefur m.a. komið niður á markaðshlutdeild þeirra og vexti útflutnings sem að hluta má tengja við veikari samkeppnisstöðu þjóðarbúsins í kostnaðarlegu tilliti.“ Hann segir því mikilvægt fyrir samkeppnishæfni Íslands að stjórnvöld og atvinnulífið noti allar leiðir til að tryggja aukinn og víðtækari stöðugleika.