Sjókvíaeldi Hætta er á að lax sleppi úr sjókvíum og gangi upp í nálægar ár.
Sjókvíaeldi Hætta er á að lax sleppi úr sjókvíum og gangi upp í nálægar ár. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Næstum engar breytingar sjást á 50 til 100 árum í stærð laxa, framleiðslu árinnar eða endurheimtum úr sjó þótt þangað gangi eldislax sem nemur 5-10% af stofni árinnar. Allt að 10% innblöndun er algeng í norskum ám.

Næstum engar breytingar sjást á 50 til 100 árum í stærð laxa, framleiðslu árinnar eða endurheimtum úr sjó þótt þangað gangi eldislax sem nemur 5-10% af stofni árinnar. Allt að 10% innblöndun er algeng í norskum ám. Hafrannsóknastofnunin á Íslandi miðar við það í sínu áhættumati að blöndunin megi ekki fara yfir 4% markið.

Norskir vísindamenn hafa þróað líkan sem sýnir hvernig erfðaeiginleikar eldislax hafa áhrif á villta laxastofna. Grein um rannsóknina hefur birst í vísindatímaritinu Evolutionary Applications . Í frétt í Dagens Næringsliv er sagt frá starfinu og rætt við Kevin Glover sem er yfirmaður rannsókna á Hafrannsóknastofnuninni í Noregi og prófessor við háskólann í Bergen. Hann var aðalfyrirlesari á málþingi erfðanefndar landbúnaðarins um áhrif laxeldis á villta laxastofna sem haldið var hér á landi í byrjun febrúar.

Náttúran hreinsar sig sjálf

Glover sagði við Dagens Næringsliv að niðurstaðan benti til þess að ekki þyrfti að búast við miklum afleiðingum af hlutfallslega lítilli innblöndun eldislax. Ástæðan er meðal annars sú að hrygning eldislax heppnast miklu verr en hjá villtum laxi. Afkomendur þeirra lifðu síður af, bæði í ánni og sjónum. Þannig yrði sterkt náttúruval sem hreinsaði til aftur eftir breytinguna.

Ef innblöndun færi yfir 30% á margra ára tímabili yrðu meiri breytingar. Fjöldi seiða og endurheimtra laxa minnkaði. Líkanið sýnir, að sögn Glover, að það taki árnar jafn langan tíma að jafna sig eftir að innblöndun hættir. Ef hins vegar innblöndun sé meiri en 50% af stofni árinnar í 200 ár útrými það villta laxastofninum. Þá sé það náttúrunni ofviða að hreinsa til eftir blöndunina. helgi@mbl.is

Virtur vísindamaður
» Kevin Glover var kynntur sem einn af fremstu vísindamönnum Noregs á sviði erfðablöndunar í laxi og vöktunar á erfðafræðilegum áhrifum laxeldis í umfjöllum blaðsins um málþing erfðanefndar landbúnaðarins þar sem hann var aðalfyrirlesari.
» Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafró, sem einnig hélt fyrirlestur, sagði Morgunblaðinu að staðan á Íslandi hefði komið Glover mjög á óvart og hann talið að hér væri verið að taka of mikla áhættu.