Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Einhverjar fyrirspurnir hafa borist Tryggingastofnun ríkisins varðandi aukinn sveigjanleika í töku ellilífeyris þar sem mögulegt er að taka hálfan lífeyri hjá TR á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Einhverjar fyrirspurnir hafa borist Tryggingastofnun ríkisins varðandi aukinn sveigjanleika í töku ellilífeyris þar sem mögulegt er að taka hálfan lífeyri hjá TR á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar segir í svari við fyrirspurn blaðsins að hins vegar hafi einungis ein umsókn borist.

Um er að ræða lagabreytingu sem samþykkt var haustið 2016 en tók ekki gildi fyrr en um seinustu áramót. TR hefur síðan þá kynnt þennan valkost á vefsíðu stofnunarinnar með skýringum og reiknað er með að lífeyrissjóðir muni breyta samþykktum sínum á aðalfundum á næstu vikum vegna heimildarinnar til greiðslu hálfs ellilífeyris til handa þeim sem náð hafa 65 ára aldri.

Sigríður Lillý bendir á að eins og fram komi í lögunum sé þessi leið bundin ýmsum skilyrðum. ,,Þurfa þau sem hana velja t.d. að afsala sér hálfum lífeyrissjóðsgreiðslum samhliða töku hálfs lífeyris hjá okkur. Að öðru leyti er ekki um tekjutengingar að ræða sé þessi leið valin,“ segir hún.

Spurð um tekjuáhrifin segir hún að sé hefðbundin leið valin þá hafi tekjur undir frítekjumörkum ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur, að öðru leyti er um tekjutengingar að ræða. „Gagnvart ellilífeyri er 25 þúsund kr. almenn frítekjumark og að auki 100 þús. kr. sértækt frítekjumark á atvinnutekjur.“